Handbolti

Aron Kristjáns tapaði líka með minnsta mun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Kristjánsson sá sína menn missa frá sér sigurinn í lok leiksins.
Aron Kristjánsson sá sína menn missa frá sér sigurinn í lok leiksins. Vísir/Hulda Margrét

Sigurganga lærisveina Arons Kristjánssonar í Kúveit á Asíumótinu í handbolta endaði með naumu tapi í dag.

Kúveit varð þá að sætta sig við eins marks tap á móti Japönum, 28-27, eftir að hafa verið einu marki yfir í hálfleik, 15-14.

Kúveit byrjaði vel og var mest þremur mörkum yfir í fyrri hálfleiknum (9-6) en Japanir enduðu hálfleikinn vel. 

Kúveitar lentu fjórum mörkum undir í seinni hálfleik en tókst að snúa því við og komast einu marki yfir. Þeir voru 27-26 yfir þegar lítið var eftir.

Japanir skoruðu hins vegar tvö síðustu mörk leiksins og tryggðu sér sigurinn.

Aron er á fyrsta Asíumótinu með Kúveit en hann hefur farið margoft með Barein á mótið.

Liðið er á heimavelli og hafði unnið fjóra fyrstu leiki sína þar af þrettán marka sigur í fyrsta leiknum í milliriðli.

Tvö efstu liðin í milliriðlinum fara í undanúrslit og fram undan er úrslitaleikur hjá Aroni og strákunum hans á móti Suður-Kóreu í lokaumferðinni. Kóreumenn gerðu jafntefli við Japana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×