Fótbolti

Sú launa­hæsta fær 250 milljónir á ári

Sindri Sverrisson skrifar
Trinity Rodman mætti á sérstakan blaðamannafund í gær þar sem tilkynnt var um nýjan samning hennar, með vel skreytta fingur.
Trinity Rodman mætti á sérstakan blaðamannafund í gær þar sem tilkynnt var um nýjan samning hennar, með vel skreytta fingur. Getty/Brad Smith

Bandaríska landsliðskonan Trinity Rodman hefur skrifað undir nýjan samning við Washington Spirit sem gerir hana að launahæstu fótboltakonu í heimi.

Rodman er enn aðeins 23 ára en hefur með nýja samningnum, sem gildir til ársins 2028, tryggt sér 2 milljónir dollara í árslaun, eða jafnvirði um 250 milljóna króna á ári.

Umboðsmaður hennar, Mike Senkowski, sagði við ESPN að þetta þýddi að þessi magnaða dóttir NBA-goðsagnarinnar Dennis Rodman yrði sú launahæsta í heimi. Hún varð samningslaus um síðustu áramót þegar samningur hennar við Spirit rann út.

„Þetta er stórkostlegt. Ég er mjög glöð. Þetta er mikil blessun,“ sagði Rodman.

„Mér finnst þetta vera sögulegt augnablik sem breytir leiknum. Ég get bara ekki lýst því hvernig mér líður með það,“ sagði Rodman.

Samkvæmt BBC var Aitana Bonmati, miðjumaður Barcelona, launahæst á undan Rodman en Bonmati hefur hlotið Gullboltann síðustu þrjú ár í röð.

Ljóst er að Rodman tekur stóran skerf af þeim launum sem Spirit er leyfilegt að greiða samkvæmt launaþaki NWSL-deildarinnar í bandaríkjunum. Launaþakið er 3,5 milljónir dollara fyrir hvert lið en stjórn deildarinnar samþykkti nýja reglu í desember sem gerir félögum deildarinnar kleift að verja aukalega 1 milljón dollara á ári vegna leikmanna sem uppfylla ákveðin skilyrði.

Rodman varð meistari með Spirit á fyrsta ári sínu með liðinu, árið 2021, og valin nýliði ársins. Hún hefur skorað 11 mörk í 47 leikjum fyrir Ólympíumeistara Bandaríkjanna og skoraði þrjú mörk á leikunum í París 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×