Innlent

Lilja sækist eftir því að leiða Fram­sókn

Eiður Þór Árnason skrifar
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins. Vísir/Egill

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi menningar- og viðskiptaráðherra, ætlar að gefa kost á sér í formannssæti flokksins. Þetta tilkynnti hún á félagsfundi Framsóknarfélags Reykjavíkur sem fram fór á Hilton Reykjavík Nordica í kvöld.

Mbl.is greindi fyrst frá. Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sækist einnig eftir formennsku á komandi flokksþingi Framsóknar í febrúar. 

Fyrir liggur að Sigurður Ingi Jóhannsson, núverandi formaður flokksins, ætlar ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku. Hann tók við árið 2016 eftir að hafa skorað Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þáverandi formann, á hólm.

Willum og Einar ætla ekki fram

Willum Þór Þórsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra Framsóknar, tilkynnti fyrr í kvöld að hann hyggist ekki bjóða fram krafta sína á flokksþinginu þann 14. til 15. febrúar sem fer fram á Hilton Reykjavík Nordica. Hvatti Willum þess í stað Lilju til að bjóða sig fram.

Einnig hefur verið skorað á Einar Þorsteinsson, fyrrverandi borgarstjóra, sem hefur gefið út að hann sækist ekki eftir formannssætinu. 

Ekki á þingi

Lilja hefur ekki sæti á Alþingi en var þingmaður Framsóknar í Reykjavíkurkjördæmi suður á árunum 2016 til 2024. Hún missti þingsæti sitt í kosningunum 2024. 

Lilja var utanríkisráðherra 2016 til 2017, mennta- og menningarmálaráðherra árin 2017 til 2021, og loks menningar- og viðskiptaráðherra 2021 til 2024. Lilja hefur verið varaformaður Framsóknarflokksins frá árinu 2016.

Fréttin hefur verið uppfærð. 


Tengdar fréttir

Willum fer ekki fram og styður Lilju

Willum Þór Þórsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og núverandi forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, ætlar ekki að gefa kost á sér í formannssæti Framsóknarflokksins. Þess í stað hvetur hann Lilju Dögg Alfreðsdóttur varaformann til að bjóða sig fram til formennsku. 

Ingibjörg býður sig fram í formanninn

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, gefur kost á sér til formanns Framsóknarflokksins á komandi flokksþingi Framsóknar í febrúar. Ingibjörg greinir frá framboði sínu á samfélagsmiðlum nú í morgun. Hún segir stöðu flokksins kalla á breytingar og að sjálf sé hún tilbúin til að bretta upp ermar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×