Handbolti

Hættu við að dæma víti og Norð­menn unnu Spán­verja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrick Anderson og félagar í norska landsliðinu eru komnir með sín fyrstu stig í milliriðlinum.
Patrick Anderson og félagar í norska landsliðinu eru komnir með sín fyrstu stig í milliriðlinum. EPA/Bo Amstrup

Norðmenn byrja vel í milliriðli sínum á Evrópumótinu í handbolta þegar liðið vann dramatískan eins marks sigur á Spánverjum í kvöld, 35-34.

Spánverjar fengu lokasóknina á móti fjórum Norðmönnum þar sem tveir Norðmenn voru í skammakróknum.

Spænska liðið reyndi að skora sirkusmark en norski hornamaðurinn náði að slá boltann í burtu.

Dómarinn dæmdi hins vegar vítakast. Dómaraparið fór síðan fyrir framan skjáinn og leiðréttu í framhaldinu dóminn, hættu við að dæma víti og flautuðu leikinn af.

August Pedersen sýndi þarna frábær tilþrif í varnarleiknum en hann átti líka stórleik i sóknarleiknum þar sem hann skoraði ellefu mörk úr þrettán skotum.

Tobias Gröndahl hafði komið Noregi í 35-34 í sókninni á undan og það reyndist vera sigurmark leiksins.

Bæði lið komu stigalaus inn í milliriðilinn og því lífsnauðsynlegt að landa sigri í dag ætlu þau að berjast um sæti í undanúrslitunum. Norðmenn fögnuðu líka gríðarlega í leikslok.

Norðmenn voru tveimur mörkum yfir, 15-13, undir lok fyrri hálfleiks en spænska liðið vann lokakafla hálfleiksins 3-1 og því var staðan 16-16 í hálfleik. Norðmenn skoruðu tvö fyrstu mörk seinni hálfleiks en þá komu fjögur spænsk mörk í röð.

Eftir það var spænska liðið skrefinu á undan í góðan tíma en það munaði þó aldrei miklu á liðunum.

Norðmenn fundu lausnir með því að spila sjö á móti sex og náðu að taka frumkvæðið með frábærum 7-3 spretti þegar þeir breyttu stöðunni úr 26-23 fyrir Spán í 30-29 fyrir Noreg.

Leikurinn var áfram gríðarlega spennandi og jafnt á öllum tölum undir lokin. Það voru aftur á móti Norðmenn sem skoruðu síðasta mark leiksins og tryggðu sér sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×