Fótbolti

Frakkar munu að svo stöddu ekki snið­ganga HM vegna Græn­lands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frakkar hafa verið í síðustu tveimur úrslitaleikjum á HM en hér kyssir kornungur Kylian Mbappe bikarinn eftir sigur Frakka á HM í Rússlandi 2018.
Frakkar hafa verið í síðustu tveimur úrslitaleikjum á HM en hér kyssir kornungur Kylian Mbappe bikarinn eftir sigur Frakka á HM í Rússlandi 2018. EPA/FACUNDO ARRIZABALAGA

Íþróttamálaráðherra Frakklands sagði að Frakkar væru ekki að íhuga að sniðganga heimsmeistaramótið í fótbolta í Bandaríkjunum vegna vaxandi spennu í tengslum við tilraunir Donalds Trump til að ná yfirráðum yfir Grænlandi.

„Á þessari stundu er enginn vilji af hálfu ráðuneytisins til að sniðganga þessa stóru keppni sem beðið er með mikilli eftirvæntingu,“ sagði Marina Ferrari íþróttamálaráðherra við fréttamenn á þriðjudag. „Að því sögðu er ég ekki að leggja mat á hvað gæti gerst.“

Ferrari bætti við að hún vildi halda íþróttum aðskildum frá stjórnmálum.

„Heimsmeistaramótið 2026 er gríðarlega mikilvæg stund fyrir alla íþróttaunnendur,“ sagði hún.

Þar sem mótið hefst í júní í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó gætu metnaðarfull áform Bandaríkjaforseta um að ná yfirráðum yfir Grænlandi frá Danmörku, bandalagsþjóð í NATO, skaðað samskiptin við bandamenn í Evrópu.

Í Frakklandi sagði vinstrisinnaði þingmaðurinn Eric Coquerel að íhuga ætti möguleikann á sniðgöngu af hálfu Frakka, sem hafa tvívegis unnið HM karla.

„Í alvöru, getum við ímyndað okkur að fara að spila fótbolta á HM í landi sem ræðst á „nágranna“ sína, hótar að ráðast inn í Grænland, grefur undan alþjóðalögum og vill eyðileggja Sameinuðu þjóðirnar?“ spurði hann í skilaboðum sem birt voru á samfélagsmiðlum.

„Spurningin vaknar fyrir alvöru, sérstaklega þar sem enn er hægt að færa mótið alfarið til Mexíkó og Kanada,“ skrifaði hann.

Frakkland tapaði fyrir Argentínu í úrslitaleik HM árið 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×