Fótbolti

KSÍ stað­festir leik gegn heimilis­lausa HM-liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson fagnar marki með íslenska landsliðinu.
Hákon Arnar Haraldsson fagnar marki með íslenska landsliðinu. Getty/MB Media

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta spilar tvo leiki í Kanada í marsmánuði og báða á móti þjóðum sem eru á leiðinni á heimsmeistaramótið í sumar.

Knattspyrnusamband Íslands hefur nú staðfest að A-landslið karla muni leika tvo vináttulandsleiki í Kanada í komandi marsglugga, þar sem íslenska liðið mætir Kanada og Haítí.

Haítí vakti athygli að tryggja sér sæti á HM þrátt fyrir að þjálfari liðsins hafi aldrei komið til landsins. Haítí gat ekki spilað né æft heima fyrir vegna hrikalegs ástands í landinu.

Áður hafði verið tilkynnt um vináttuleik við Mexíkó í mexíkósku borginni Queretaro 25. febrúar, en sá leikur er ekki í FIFA-glugga.

Vináttuleikirnir við Kanada og Haítí eru hluti af leikjaseríu fjögurra þjóða þar sem hver þjóð leikur tvo leiki. Kanada, Haítí og Túnis eru á meðal þátttökuþjóða í úrslitakeppni HM 2026 í Norður-Ameríku.

Báðir leikirnir hjá Íslandi fara fram á Canada BMO Field-leikvanginum í Ontario en það verða tveir leikir á dag á sama leikvanginum.

Þrír fyrstu landsleikir ársins verða því á móti HM-þjóðum, landsliðum sem eru að undirbúa sig fyrir þátttöku á heimsmeistaramótinu í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada.

  • Leikir æfingamótsins í Kanada:
  • Laugardagur 28. mars: Kanada – Ísland
  • Laugardagur 28. mars: Túnis - Haítí
  • Þriðjudagur 31. mars: Haítí - Ísland
  • Þriðjudagur 31. mars: Kanada - Túnis



Fleiri fréttir

Sjá meira


×