Handbolti

Stærsta stund strákanna okkar

Sindri Sverrisson skrifar
Hvernig smakkast? Sigfús Sigurðsson og Logi Geirsson brugðu á leik eftir fyrstu og einu Ólympíuverðlaun handboltalandsliðsins hingað til.
Hvernig smakkast? Sigfús Sigurðsson og Logi Geirsson brugðu á leik eftir fyrstu og einu Ólympíuverðlaun handboltalandsliðsins hingað til. VÍSIR/VILHELM

Strákarnir okkar standa í ströngu á EM karla í handbolta þessa dagana. Stærsta stund liðsins hingað til er án vafa þegar liðið vann Ólympíusilfrið í Peking 2008, enda ein minnisverðustu tíðindi í sögu íslenska lýðveldisins, svo notuð séu orð Ólafs Ragnars Grímssonar, þáverandi forseta.

Ljósmyndarinn Vilhelm Gunnarsson var í Peking og festi þessa ógleymanlegu stund á filmu, þegar Ísland varð fámennasta þjóð sögunnar til að vinna Ólympíuverðlaun.

Það gerðu strákarnir okkar með því að tapa aðeins einum leik í riðlakeppninni, vinna Pólland í 8-liða úrslitum, 32-30, og svo Spán í undanúrslitum, 36-30. Þó að liðið hafi svo tapað gegn Frakklandi í úrslitaleiknum, 28-23, stendur eftir afrek sem íslenska þjóðin gleymir aldrei.

Ólafur Stefánsson var ekki bara einn albesti, eða bara besti, leikmaður íslenska landsliðsins heldur einhvers konar andlegur leiðtogi líka. Hér lifir hann sig algjörlega inn í eitthvað sem á gekk í 33-31 sigrinum gegn Rússum.VÍSIR/VILHELM

Ingimundur Ingimundarson klár í að taka miðjuna hratt í 33-29 sigrinum gegn Þjóðverjum. Þeir Sverre Jakobsson mynduðu stórkostlegt par í hjarta íslensku varnarinnar.VÍSIR/VILHELM

Ísland vann Pólland í 8-liða úrslitum og svo Spán í undanúrslitum, eftir afar spennandi riðlakeppni. Strákarnir okkar fögnuðu vel á sigurstundum og íslenska þjóðin ekki síður enda fylgdist hún öll með heima á Fróni.VÍSIR/VILHELM

Eina tap Íslands á Ólympíuleikunum, fram að úrslitaleiknum við Frakka, var gegn Suður-Kóreu, 22-21. Björgvin Páll Gústavsson sló í gegn á leikunum en hann gat ekki komið í veg fyrir tapið gegn Kóreumönnum.VÍSIR/VILHELM

Guðjón Valur Sigurðsson nýtir hér ógnvænlegan stökkkraft sinn í jafnteflinu við Danmörku í riðlakeppninni, 32-32. Guðjón skoraði sex mörk í leiknum en markahæstur var Snorri Steinn Guðjónsson með átta mörk, eftir að hafa jafnað úr víti fjórum sekúndum fyrir leikslok.VÍSIR/VILHELM

Sverre Jakobsson og Logi Geirsson með Guðjón Val Sigurðsson í fanginu eftir dramatíkina í jafnteflinu við Danmörku. Þar vannst stig sem reyndist dýrmætt.VÍSIR/VILHELM

Það er oft mikill hamagangur á hliðarlínunni og hér er Sverre Jakobsson búinn að grípa í Guðmund þjálfara, í spennuleiknum gegn Dönum í riðlakeppninni.VÍSIR/VILHELM

Lætin voru mikil í slagnum við Dani í riðlakeppninni og hér eiga Guðjón Valur Sigurðsson og Sigfús Sigurðsson eitthvað vantalað við Ulrik Wilbek, þjálfara Danmerkur. Wilbek átti síðar eftir að ráða Guðmund Guðmundsson sem eftirmann sinn hjá danska landsliðinu, sem skilaði Dönum þeirra fyrsta Ólympíugulli í handbolta karla.VÍSIR/VILHELM

Róbert Gunnarsson, línumaðurinn magnaði, í hörðum átökum við Egypta í 32-32 jafntefli liðanna í riðlakeppninni. Ísland endaði einu stigi fyrir ofan Þýskaland sem komst ekki áfram í 8-liða úrslitin. Egyptaland sat einnig eftir.VÍSIR/VILHELM

Ólafur Stefánsson og Sigfús Sigurðsson fagna hér ákaft eftir sigurinn gegn Pólverjum í 8-liða úrslitum, 32-30. Þar með var ljóst að Ísland myndi spila um verðlaun á leikunum.VÍSIR/VILHELM

Ólafur Stefánsson í mikilli glímu í sigrinum gegn Spánverjum í undanúrslitum. Hann var valinn í stjörnulið mótsins ásamt Guðjóni Val og Snorra Steini.VÍSIR/VILHELM

Guðjón Valur Sigurðsson steytir hnefann í sigrinum ógleymanlega gegn Spánverjum í undanúrslitum, sem tryggði strákunum okkar Ólympíuverðlaun.VÍSIR/VILHELM

Landskunnir leikarar og allir aðrir Íslendingar fögnuðu dátt þegar fyrstu Ólympíuverðlaun handboltalandsliðsins voru í höfn, með 36-30 sigri gegn Spáni í undanúrslitum. Án vafa ein allra stærsta stund í íþróttasögu þjóðarinnar.vísir/Vilhelm

Ógleymanleg mynd sem lýsir svo vel tilfinningum Íslendinga eftir sigurinn gegn Spáni. Sigfús Sigurðsson leggur hrammana utan um höfuð Ólafs Stefánssonar sem leyfir öllum tilfinningunum að brjótast út. Þetta var stundin. Þarna voru Ólympíuverðlaunin tryggð.VÍSIR/VILHELM

Logi Geirsson og Ólafur Stefánsson mættu í viðtal til Adolfs Inga Erlingssonar hjá RÚV eftir sigurinn gegn Spáni í undanúrslitum. Til hans mætti einnig Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti, og forsetafrúin Dorrit Moussaieff sló í gegn þegar hún brá sér inn í viðtalið og sagði: „Ísland er ekki lítið land, það er stórasta land í heimi“.VÍSIR/VILHELM

Ásgeir Örn Hallgrímsson einbeittur í loftinu og tilbúinn að negla framhjá Thierry Omeyer í úrslitaleiknum gegn Frökkum.VÍSIR/VILHELM

Þó að Ólympíusilfur Íslands hafi vakið heimsathygli og Guðmundur Guðmundsson líti stoltur um öxl í dag þá var hann svekktur eins og sjá má, eftir tapið í úrslitaleiknum. Frakkar voru þar mun sterkari og unnu 28-23 sigur.VÍSIR/VILHELM

VÍSIR/VILHELM

Landsliðsþjálfari Íslands í dag, Snorri Steinn Guðjónsson, glaðbeittur með Ólympíusilfrið ásamt Guðjóni Val Sigurðssyni, sem nú þjálfar Gummersbach, og Ólafi Stefánssyni sem nú sér um að gagnrýna Snorra og íslenska liðið á RÚV. Einnig má sjá hornamanninn Sturlu Ásgeirsson og Arnór Atlason, sem nú aðstoðar Snorra með íslenska landsliðið.vísir/Vilhelm

Hópurinn sem hampaði silfurverðlaununum. Leikmennina þekkja flestir Íslendingar, sem og þjálfarann Guðmund Guðmundsson og aðstoðarmenn hans Gunnar Magnússon og Óskar Bjarna Óskarsson. Á myndinni eru einnig Pétur Örn Gunnarsson sjúkraþjálfari, Ingibjörg Ragnarsdóttir nuddari, Einar Þorvarðarson þáverandi framkvæmdastjóri HSÍ, og Brynjólfur Jónsson læknir.VÍSIR/VILHELM

Tengdar fréttir

Þegar miðborgin stóð í ljósum logum

Þann 18. apríl 2007 varð einn alvarlegasti eldsvoði í sögu Reykjavíkur þegar stórbruni braust út í húsnæði við Austurstræti, í hjarta miðborgarinnar. Eldurinn breiddist hratt út og olli gríðarlegum skemmdum á hluta elstu byggðar borgarinnar, á svæði sem gegnt hafði mikilvægu hlutverki í borgarlífi Reykjavíkur um áratugaskeið. 

Eldgosið sem lýsti upp næturhiminninn og lamaði Evrópu

Óhætt er að fullyrða að enginn einn atburður í sögunni hafi gert garð Íslands eins og frægan og eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010. Öskugosið í toppgígnum ógnaði sveitabyggðinni við rætur fjallsins og raskaði flugumferð í Evrópu vikum saman. En gosið var jafnframt mikið sjónarspil, eins og sést á meðfylgjandi myndum sem teknar voru af Vilhelm Gunnarssyni, ljósmyndara Vísis, nokkrum dögum eftir að sprengigos hófst undir jökli í Eyjafjallajökli sjálfum.

Leitin á Svínafellsjökli sem hefur enn ekki skilað árangri

Mikill harmleikur átti sér stað í ágústmánuði árið 2007 þegar tveir þýskir ferðamenn týndust á Svínafellsjökli. Í fimm daga stóðu yfir umfangsmiklar aðgerðir þar sem á þriðja hundrað björgunarsveitarmanna leituðu mannanna, en án árangurs. Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, fylgdi björgunarsveitarmönnunum eftir á fjórða og fimmta degi leitarinnar, í stórbrotnu umhverfi Svínafellsjökuls.

Eldsvoðinn í Reykjavík sem líkt var við náttúruhamfarir

Seint í nóvember árið 2004 átti sér stað einhver mesti bruni sem orðið hafði á höfuðborgarsvæðinu í áratugi. Þá kviknaði í gríðarlegum dekkja- og spilliefnahaug á athafnasvæði förgunarfyrirtækisins Hringrásar við Sundahöfn. Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, var á svæðinu þessa nótt og festi á filmu baráttu slökkviliðsmannanna við eldinn.

Skelfing greip um sig þegar björgunarbátnum hvolfdi

Aðfaranótt 19. desember 2006 strandaði flutningaskipið Wilson Muuga við Hvalsnes sunnan við Sandgerði. Skipið, sem var alls 5700 lestir, var að koma frá Grundartanga á leið til Murmansk eftir að hafa losað kvarts.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×