Hugleiðingar um hitaveitu Eiríkur Hjálmarsson skrifar 13. janúar 2026 14:32 Hvert lofthitametið á fætur öðru féll á síðasta ári. Jólamánuðurinn var einstakur og það má víða lesa umfjöllun vísindafólks um afbrigðilegheitin. Á vef Veðurstofu Íslands tekur Kristín Björg Ólafsdóttir sérfræðingur í veðurfarsrannsóknum saman glögg gögn um þetta hlýjasta ár frá upphafi mælinga, á Bliku Einar Sveinbjörnssonar veðurfræðings er fjallað um „stóra stökkið“ milli 2024 og 2025 og fróðlega nýja pistla um tíðarfarið er að finna á Hungurdiskum, bloggi Trausta Jónssonar veðurfræðings. Einhver kastaði því fram á dögunum að í þessu ljósi væri soldið spes að fjárfesta þyrfti mikið í hitaveitunum. Eðlilegt að spurt sé. Sekúndulítrar á mann Við Þráinn Friðriksson jarðfræðivinnufélagi minn höfum verið að kíkja á tölur síðustu ára og áratuga um hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu. Hann á vafalaust eftir að skrifa vísindagrein með merkum gögnum um málið. Hann er hinsvegar upptekinn þessa dagana, meðal annars við boranir eftir heitu vatni. Þess vegna sit ég einn við tölvuna og skrifa þennan texta um hitaveitu og samfélag. Fyrst þetta. Það er nánast línuleg fylgni milli íbúafjölda höfuðborgarsvæðisins og notkunar á heitu vatni. Ef við skoðum fylgnina frá því að hitaveituvæðingu höfuðborgarsvæðisins lauk, rétt fyrir 1980, til síðasta árs þá er fylgnitalan 0,96. Fylgnitalan 1 þýddi að fyrir hvern nýjan íbúa höfuðborgarsvæðisins vissum við nákvæmlega hve marga lítra af heitu vatni við þyrftum til viðbótar í hitaveituna. Þetta er ansi nálægt því svo hægt er með talsverðri vissu að spá fyrir um heitavatnsþörf út frá íbúafjöldaspá. Þetta þýðir líka að þó veðrið hafi verið ömurlegt og indælt og allt þar á milli þessa áratugi, þá hafa sveiflurnar í því ekki breytt miklu um þetta lengri tíma samhengi fólksfjölda og notkunar á heitu vatni. Fyrri útúrdúr Fylgnin sem rædd er hér að ofan þýðir að heitavatnsnotkun á mann hefur verið svipuð áratugum saman. Það er aðeins breytilegt milli ára en frá því um 1980 og fram yfir aldamót minnkaði þó heitavatnsnotkun á mann lítillega. Við getum líklega skýrt það með því að nýju húsin sem alltaf voru að bætast við byggðina voru betur einangruð en þau sem fyrir voru. Það eru nefnilega alveg um 90% af vatninu sem fara í húshitun. Restin fer í kranana, sturturnar, sundlaugarnar, snjóbræðsluna og gróðurhúsin. Um 2005 breytist þessi tilhneiging og notkun á hvern íbúa hefur þokast eilítið upp á við síðan. Hvers vegna skyldi það vera? Okkur Þráni komu nokkrar skýringar í hug. Hugsanlega búum við rýmra en áður (jafnvel þótt börnin okkar eigi erfitt með að komast á húsnæðismarkaðinn þessa dagana). Ferðamönnum, sem auðvitað teljast ekki til íbúa, hefur fjölgað rosalega. Snjóbræðsla er líka talsvert útbreiddari en áður og fleiri eru með heitan pott í garðinum. Af hverju skiptin verða í kringum árið 2005 erum við hinsvegar ekki með á hreinu. Ferðamönnum fjölgaði þannig hægt og rólega árin á undan og svo fram að hruni. Sprengingin í þeim bransa varð seinna. Önnur pæling er að raftækjabreytingarnar hafi þarna áhrif. Stóru raftækin á heimilunum og ljósaperurnar urðu sífellt sparneytnari þannig að rafmagnsnotkun á íbúa fór minnkandi allt fram að rafbílavæðingu. Gömlu raftækin og glóperurnar gefa frá sér meiri hita en þessi nýrri. Er hugsanlegt að við hvarf þeirra hækki Danfossinn aðeins á ofnunum hjá okkur? Stóra myndin er samt sú sama; það er mikil fylgni milli íbúafjölda hvers árs og notkunar á heitu vatni það árið. Stóra myndin Hagstofan gefur út mannfjöldaspá. Sú nýjasta gerir ráð fyrir að okkur fjölgi um tæp 2% á ári næstu árin, svo hægist á vexti og hámarki verði náð árið 2067. Þá hefjist eilítil fækkun ár frá ári. Ef við reiknum með að landsmenn skipi búsetu sinni eins og núna þá verða íbúar höfuðborgarsvæðisins 357.632 árið 2067. Þeir voru 249.054 nú um áramótin. Fjölgunin yrði því 43,6%, eða 108.578 manneskjur. Fjölgunin á höfuðborgarsvæðinu næstu hálfu öldina yrði jafnmikil og allir íbúar Reykjavíkur voru um aldmótin síðustu, gangi mannfjöldaspáin eftir. Hugsum þá aftur til hitaveitunnar. Ef heitavatnsþörfin heldur áfram að vaxa í takti við mannfjölda er eins gott að Þráinn jarðfræðingur sé frekar að bora en að skrifa. Það þarf líka að huga að fleiru en að finna nýtt vatn því við verðum að gæta að þeim straumum sem við njótum nú þegar. Höfuðborgarsvæðið fær nú þegar hátt í ⅔ af varmaorkunni frá virkjununum á Hengilssvæðinu. Það hlutfall fer vaxandi en undir árslok 2026 ætlar Orka náttúrunnar að taka í notkun nýja varmastöð í Hellisheiðarvirkjun. Hvað ef það gýs í Henglinum og vinnslan raskast? Þá þyrftum við ef til vill að reiða okkur meira á lághitasvæðin, það er þau svæði hér innan höfuðborgarsvæðisins sem hafa séð okkur fyrir jarðhitavatni í næstum 100 ár, frá því áður en Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun voru byggðar. Þessi svæði eru nýtt með öðrum hætti í dag en lengst af. Nú eru þau hvíld að talsverðu leyti yfir sumartímann en nýtt á vetrum og þrautnýtt í kuldaköstum. Þessi svæði – í Laugarnesinu og Elliðaárdalnum í Reykjavík og í Mosfellsbænum – jafna sig nefnilega fái þau sína hvíld milli átaka. Þau eru því frábær til að mæta álagstoppunum. Verði loftslagsþróunin sú að almennt hlýni en áfram verði bitur kuldaköst er gott að geta tekið mikið upp úr lághitasvæðunum og hratt en gefa þeim svo hvíld þegar aftur hlánar. Til þess þarf að bora, jafnvel þótt ekki verði tekið meira upp úr svæðunum í heildina. Síðari útúrdúr Árið 2025 – þetta hlýjasta ár frá upphafi mælinga – var áhugavert hjá hitaveitunni á höfuðborgarsvæðinu. Eftir metnotkun árið 2024 minnkaði heitavatnsnotkun um 10% milli ára og var nánast sú sama í fyrra og árið 2020. Álagstoppurinn, eða vatnsfrekasti sólarhringur ársins, í fyrra var hinsvegar bara 5% lægri en árið 2024. Meðalhitinn segir þannig alls ekki alla söguna. Árið 2024 var talsvert kaldara að jafnaði en 2023 og heitavatnsnotkunin 6% meiri en árið á undan. Álagstoppurinn 2023 var hinsvegar hærri 2023 en 2024 og þá höfðum við hreinlega ekki undan. Ég ætlast ekki til þess af Vísi að birta allt gagnasafnið hans Þráins en hérna er svolítil gagnatafla yfir síðustu ár fyrir þig að nördast með og draga eigin ályktanir. Stærsta myndin Hitaveita höfuðborgarsvæðisins hefur sparað okkur losun á gróðurhúsalofttegundum sem nemur um 70 milljónum tonna frá miðri síðustu öld[i]. Til samanburðar losuðu öll ökutæki Íslendinga 0,9 milljón tonn árið 2024. Það skiptir því máli að geta áfram mætt vexti samfélagsins með þeirri hreinu orku sem jarðhitinn gefur okkur. Munum að þegar farið var að byggja Breiðholtið uppúr 1960 var olíukynding í talsverðum hluta þess jafnvel þótt hitaveita hefði verið í borginni frá því 1930. Það er ekki fyrr en um 1980 að okkur tekst að fylgja vexti höfuðborgarsvæðisins við að afla heits vatns. Það ætlum við að gera áfram enda hefur þetta reynst einhver traustasta undirstaða sjálfbærrar borgar. Þess vegna er Þráinn að bora og þú situr uppi með þessi skrif eftir mig. Höfundur er sjálfbærnistjóri Orkuveitunnar. [i] Fyrir utan ábata heimilanna af því að þurfa ekki að kaupa dýra innflutta kyndiolíu má benda á að miðað við verðið á losunarheimild í dag eru öll þessi spöruðu tonn 6,3 milljarða evra virði. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Eiríkur Hjálmarsson Orkumál Mest lesið Framhaldsskólinn: horfum til framtíðar og finnum lausnir Simon Cramer Larsen Skoðun Hvers vegna læra börnin þín ekki neitt? Svarið gæti verið í speglinum Jónas Sen Skoðun Ég reyndi að byggja ódýrar íbúðir í Reykjavík Pétur Marteinsson Skoðun Kynhlutlaust klerkaveldi Haukur Þorgeirsson Skoðun Aðför að heildrænni endurhæfingu: Skammsýni á Reykjalundi Þórunn Hanna Halldórsdóttir,Elísabet Arnardóttir,Sigríður Magnúsdóttir,Þóra Másdóttir Skoðun Menntastefna á finnskum krossgötum Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Er skóli án aðgreiningar barn síns tíma? Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Skoðun Ódýrt á pappír, dýrt í raun – og þjóðin blæðir Vilhelm Jónsson Skoðun 900 metrar sem geta breytt Grafarvogi Friðjón Friðjónsson Skoðun Samvinna, en ekki einangrun María Malmquist Skoðun Skoðun Skoðun Hvers vegna læra börnin þín ekki neitt? Svarið gæti verið í speglinum Jónas Sen skrifar Skoðun Ég reyndi að byggja ódýrar íbúðir í Reykjavík Pétur Marteinsson skrifar Skoðun Aðför að heildrænni endurhæfingu: Skammsýni á Reykjalundi Þórunn Hanna Halldórsdóttir,Elísabet Arnardóttir,Sigríður Magnúsdóttir,Þóra Másdóttir skrifar Skoðun Framhaldsskólinn: horfum til framtíðar og finnum lausnir Simon Cramer Larsen skrifar Skoðun Um taugafjölbreytileika Svava Ólafsdóttir skrifar Skoðun Ódýrt á pappír, dýrt í raun – og þjóðin blæðir Vilhelm Jónsson skrifar Skoðun Samvinna, en ekki einangrun María Malmquist skrifar Skoðun 900 metrar sem geta breytt Grafarvogi Friðjón Friðjónsson skrifar Skoðun Kerfi sem kosta skattgreiðendur Sölvi Breiðfjörð skrifar Skoðun Ákall til önugra femínista – Steinunni í borgarstjórn! Hrafnhildur Kjerúlf Sigmarsdóttir skrifar Skoðun Er skóli án aðgreiningar barn síns tíma? Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar Skoðun Alvöru aðför að einkabílnum Búi Bjarmar Aðalsteinsson skrifar Skoðun Mótmæli bænda í Evrópu halda áfram – þegar viðvaranir fá engin svör Erna Bjarnadóttir skrifar Skoðun Setjum endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna í forgang Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Kolbrún Halldórsdóttir skrifar Skoðun Um siðfræðingsvandamálið Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir skrifar Skoðun Þegar fátt virðist gerast: Hvað er í raun að gerast þegar börn leika sér í leikskóla? Margrét Gígja Þórðardóttir,Ingibjörg Vilbergsdóttir skrifar Skoðun Kynhlutlaust klerkaveldi Haukur Þorgeirsson skrifar Skoðun Hugleiðingar um hitaveitu Eiríkur Hjálmarsson skrifar Skoðun Þéttingarstefna eða skynsemi? Ögmundur Ísak Ögmundsson skrifar Skoðun Hvers virði er starfsumhverfi myndlistarmanna? Jóna Hlíf Halldórsdóttir skrifar Skoðun Ekki gera ekki neitt Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar Skoðun Mönnun íslensks heilbrigðiskerfis til framtíðar í uppnámi Unnur Anna Valdimarsdóttir,Arna Hauksdóttir,Berglind Eva Benediktsdóttir,Bjarni Elvar Pétursson,Heiða María Sigurðardóttir,Helga Bragadóttir,Ólafur Ögmundarson,Sólveg Ása Árnadóttir,Sædís Sævarsdóttir skrifar Skoðun Mjódd framtíðar - hjarta Breiðholts Sara Björg Sigurðardóttir skrifar Skoðun Opið bréf til frambjóðenda í Reykjavík: Hættum frösunum – leysum leikskólavandann með raunverulegum aðgerðum Nichole Leigh Mosty skrifar Skoðun Það þarf ekki fullkomið fólk til að móta gott samfélag. Það þarf fólk sem er tilbúið að vera til staðar Liv Åse Skarstad skrifar Skoðun 32 dagar Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar Skoðun Blóraböggull fundinn! Jenný Gunnbjörnsdóttir skrifar Skoðun Skaðaminnkun Rauða krossins Ósk Sigurðardóttir,Sigríður Ella Jónsdóttir skrifar Skoðun Áfram, hærra Logi Pedro Stefánsson skrifar Skoðun Reykjavík stígi alla leið Þórdís Lóa Þórhallsdóttir skrifar Sjá meira
Hvert lofthitametið á fætur öðru féll á síðasta ári. Jólamánuðurinn var einstakur og það má víða lesa umfjöllun vísindafólks um afbrigðilegheitin. Á vef Veðurstofu Íslands tekur Kristín Björg Ólafsdóttir sérfræðingur í veðurfarsrannsóknum saman glögg gögn um þetta hlýjasta ár frá upphafi mælinga, á Bliku Einar Sveinbjörnssonar veðurfræðings er fjallað um „stóra stökkið“ milli 2024 og 2025 og fróðlega nýja pistla um tíðarfarið er að finna á Hungurdiskum, bloggi Trausta Jónssonar veðurfræðings. Einhver kastaði því fram á dögunum að í þessu ljósi væri soldið spes að fjárfesta þyrfti mikið í hitaveitunum. Eðlilegt að spurt sé. Sekúndulítrar á mann Við Þráinn Friðriksson jarðfræðivinnufélagi minn höfum verið að kíkja á tölur síðustu ára og áratuga um hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu. Hann á vafalaust eftir að skrifa vísindagrein með merkum gögnum um málið. Hann er hinsvegar upptekinn þessa dagana, meðal annars við boranir eftir heitu vatni. Þess vegna sit ég einn við tölvuna og skrifa þennan texta um hitaveitu og samfélag. Fyrst þetta. Það er nánast línuleg fylgni milli íbúafjölda höfuðborgarsvæðisins og notkunar á heitu vatni. Ef við skoðum fylgnina frá því að hitaveituvæðingu höfuðborgarsvæðisins lauk, rétt fyrir 1980, til síðasta árs þá er fylgnitalan 0,96. Fylgnitalan 1 þýddi að fyrir hvern nýjan íbúa höfuðborgarsvæðisins vissum við nákvæmlega hve marga lítra af heitu vatni við þyrftum til viðbótar í hitaveituna. Þetta er ansi nálægt því svo hægt er með talsverðri vissu að spá fyrir um heitavatnsþörf út frá íbúafjöldaspá. Þetta þýðir líka að þó veðrið hafi verið ömurlegt og indælt og allt þar á milli þessa áratugi, þá hafa sveiflurnar í því ekki breytt miklu um þetta lengri tíma samhengi fólksfjölda og notkunar á heitu vatni. Fyrri útúrdúr Fylgnin sem rædd er hér að ofan þýðir að heitavatnsnotkun á mann hefur verið svipuð áratugum saman. Það er aðeins breytilegt milli ára en frá því um 1980 og fram yfir aldamót minnkaði þó heitavatnsnotkun á mann lítillega. Við getum líklega skýrt það með því að nýju húsin sem alltaf voru að bætast við byggðina voru betur einangruð en þau sem fyrir voru. Það eru nefnilega alveg um 90% af vatninu sem fara í húshitun. Restin fer í kranana, sturturnar, sundlaugarnar, snjóbræðsluna og gróðurhúsin. Um 2005 breytist þessi tilhneiging og notkun á hvern íbúa hefur þokast eilítið upp á við síðan. Hvers vegna skyldi það vera? Okkur Þráni komu nokkrar skýringar í hug. Hugsanlega búum við rýmra en áður (jafnvel þótt börnin okkar eigi erfitt með að komast á húsnæðismarkaðinn þessa dagana). Ferðamönnum, sem auðvitað teljast ekki til íbúa, hefur fjölgað rosalega. Snjóbræðsla er líka talsvert útbreiddari en áður og fleiri eru með heitan pott í garðinum. Af hverju skiptin verða í kringum árið 2005 erum við hinsvegar ekki með á hreinu. Ferðamönnum fjölgaði þannig hægt og rólega árin á undan og svo fram að hruni. Sprengingin í þeim bransa varð seinna. Önnur pæling er að raftækjabreytingarnar hafi þarna áhrif. Stóru raftækin á heimilunum og ljósaperurnar urðu sífellt sparneytnari þannig að rafmagnsnotkun á íbúa fór minnkandi allt fram að rafbílavæðingu. Gömlu raftækin og glóperurnar gefa frá sér meiri hita en þessi nýrri. Er hugsanlegt að við hvarf þeirra hækki Danfossinn aðeins á ofnunum hjá okkur? Stóra myndin er samt sú sama; það er mikil fylgni milli íbúafjölda hvers árs og notkunar á heitu vatni það árið. Stóra myndin Hagstofan gefur út mannfjöldaspá. Sú nýjasta gerir ráð fyrir að okkur fjölgi um tæp 2% á ári næstu árin, svo hægist á vexti og hámarki verði náð árið 2067. Þá hefjist eilítil fækkun ár frá ári. Ef við reiknum með að landsmenn skipi búsetu sinni eins og núna þá verða íbúar höfuðborgarsvæðisins 357.632 árið 2067. Þeir voru 249.054 nú um áramótin. Fjölgunin yrði því 43,6%, eða 108.578 manneskjur. Fjölgunin á höfuðborgarsvæðinu næstu hálfu öldina yrði jafnmikil og allir íbúar Reykjavíkur voru um aldmótin síðustu, gangi mannfjöldaspáin eftir. Hugsum þá aftur til hitaveitunnar. Ef heitavatnsþörfin heldur áfram að vaxa í takti við mannfjölda er eins gott að Þráinn jarðfræðingur sé frekar að bora en að skrifa. Það þarf líka að huga að fleiru en að finna nýtt vatn því við verðum að gæta að þeim straumum sem við njótum nú þegar. Höfuðborgarsvæðið fær nú þegar hátt í ⅔ af varmaorkunni frá virkjununum á Hengilssvæðinu. Það hlutfall fer vaxandi en undir árslok 2026 ætlar Orka náttúrunnar að taka í notkun nýja varmastöð í Hellisheiðarvirkjun. Hvað ef það gýs í Henglinum og vinnslan raskast? Þá þyrftum við ef til vill að reiða okkur meira á lághitasvæðin, það er þau svæði hér innan höfuðborgarsvæðisins sem hafa séð okkur fyrir jarðhitavatni í næstum 100 ár, frá því áður en Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun voru byggðar. Þessi svæði eru nýtt með öðrum hætti í dag en lengst af. Nú eru þau hvíld að talsverðu leyti yfir sumartímann en nýtt á vetrum og þrautnýtt í kuldaköstum. Þessi svæði – í Laugarnesinu og Elliðaárdalnum í Reykjavík og í Mosfellsbænum – jafna sig nefnilega fái þau sína hvíld milli átaka. Þau eru því frábær til að mæta álagstoppunum. Verði loftslagsþróunin sú að almennt hlýni en áfram verði bitur kuldaköst er gott að geta tekið mikið upp úr lághitasvæðunum og hratt en gefa þeim svo hvíld þegar aftur hlánar. Til þess þarf að bora, jafnvel þótt ekki verði tekið meira upp úr svæðunum í heildina. Síðari útúrdúr Árið 2025 – þetta hlýjasta ár frá upphafi mælinga – var áhugavert hjá hitaveitunni á höfuðborgarsvæðinu. Eftir metnotkun árið 2024 minnkaði heitavatnsnotkun um 10% milli ára og var nánast sú sama í fyrra og árið 2020. Álagstoppurinn, eða vatnsfrekasti sólarhringur ársins, í fyrra var hinsvegar bara 5% lægri en árið 2024. Meðalhitinn segir þannig alls ekki alla söguna. Árið 2024 var talsvert kaldara að jafnaði en 2023 og heitavatnsnotkunin 6% meiri en árið á undan. Álagstoppurinn 2023 var hinsvegar hærri 2023 en 2024 og þá höfðum við hreinlega ekki undan. Ég ætlast ekki til þess af Vísi að birta allt gagnasafnið hans Þráins en hérna er svolítil gagnatafla yfir síðustu ár fyrir þig að nördast með og draga eigin ályktanir. Stærsta myndin Hitaveita höfuðborgarsvæðisins hefur sparað okkur losun á gróðurhúsalofttegundum sem nemur um 70 milljónum tonna frá miðri síðustu öld[i]. Til samanburðar losuðu öll ökutæki Íslendinga 0,9 milljón tonn árið 2024. Það skiptir því máli að geta áfram mætt vexti samfélagsins með þeirri hreinu orku sem jarðhitinn gefur okkur. Munum að þegar farið var að byggja Breiðholtið uppúr 1960 var olíukynding í talsverðum hluta þess jafnvel þótt hitaveita hefði verið í borginni frá því 1930. Það er ekki fyrr en um 1980 að okkur tekst að fylgja vexti höfuðborgarsvæðisins við að afla heits vatns. Það ætlum við að gera áfram enda hefur þetta reynst einhver traustasta undirstaða sjálfbærrar borgar. Þess vegna er Þráinn að bora og þú situr uppi með þessi skrif eftir mig. Höfundur er sjálfbærnistjóri Orkuveitunnar. [i] Fyrir utan ábata heimilanna af því að þurfa ekki að kaupa dýra innflutta kyndiolíu má benda á að miðað við verðið á losunarheimild í dag eru öll þessi spöruðu tonn 6,3 milljarða evra virði.
Aðför að heildrænni endurhæfingu: Skammsýni á Reykjalundi Þórunn Hanna Halldórsdóttir,Elísabet Arnardóttir,Sigríður Magnúsdóttir,Þóra Másdóttir Skoðun
Skoðun Aðför að heildrænni endurhæfingu: Skammsýni á Reykjalundi Þórunn Hanna Halldórsdóttir,Elísabet Arnardóttir,Sigríður Magnúsdóttir,Þóra Másdóttir skrifar
Skoðun Ákall til önugra femínista – Steinunni í borgarstjórn! Hrafnhildur Kjerúlf Sigmarsdóttir skrifar
Skoðun Mótmæli bænda í Evrópu halda áfram – þegar viðvaranir fá engin svör Erna Bjarnadóttir skrifar
Skoðun Setjum endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna í forgang Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Kolbrún Halldórsdóttir skrifar
Skoðun Þegar fátt virðist gerast: Hvað er í raun að gerast þegar börn leika sér í leikskóla? Margrét Gígja Þórðardóttir,Ingibjörg Vilbergsdóttir skrifar
Skoðun Mönnun íslensks heilbrigðiskerfis til framtíðar í uppnámi Unnur Anna Valdimarsdóttir,Arna Hauksdóttir,Berglind Eva Benediktsdóttir,Bjarni Elvar Pétursson,Heiða María Sigurðardóttir,Helga Bragadóttir,Ólafur Ögmundarson,Sólveg Ása Árnadóttir,Sædís Sævarsdóttir skrifar
Skoðun Opið bréf til frambjóðenda í Reykjavík: Hættum frösunum – leysum leikskólavandann með raunverulegum aðgerðum Nichole Leigh Mosty skrifar
Skoðun Það þarf ekki fullkomið fólk til að móta gott samfélag. Það þarf fólk sem er tilbúið að vera til staðar Liv Åse Skarstad skrifar
Aðför að heildrænni endurhæfingu: Skammsýni á Reykjalundi Þórunn Hanna Halldórsdóttir,Elísabet Arnardóttir,Sigríður Magnúsdóttir,Þóra Másdóttir Skoðun