Innlent

Hefja á­tak í bólu­setningu drengja gegn HPV veirunni

Lovísa Arnardóttir skrifar
Drengir í 2010-árgangnum verður boðin bólusetning í grunnskólanum sínum en árgangar 2009 og 2008 eru útskrifaðir og því verður leitað til þeirra með boð með öðrum leiðum.
Drengir í 2010-árgangnum verður boðin bólusetning í grunnskólanum sínum en árgangar 2009 og 2008 eru útskrifaðir og því verður leitað til þeirra með boð með öðrum leiðum. Vísir/Vilhelm

Sóttvarnalæknir boðaði í vikunni að það ætti að hefja átak um bólusetningu drengja gegn HPV Bólusetningin er gjaldfrjáls fyrir drengi sem eru fæddir árin 2008 til 2010. Langalgengasta krabbameinið sem tengist HPV er leghálskrabbamein en hjá karlmönnum er krabbamein í koki einnig algengt og tengist HPV-veirunni sömuleiðis. 

Samkvæmt upplýsingum úr skýrslu um þátttöku í almennum bólusetningum barna hafa aðeins 150 drengir úr árgangi 2008 þegið bólusetninguna, 176 í árgangi 2009 en svo 1.630 í árgangi 2010. Í árgangi 2011 hafa 2.440 drengir þegið bólusetninguna til samanburðar en þeir eru í fyrsta árgangi drengja sem var boðin slík bólusetning án endurgjalds. Stúlkur í þessum árgöngum voru bólusettar 2020 til 2022 en á þeim tíma var bólusetning drengja ekki almenn.

Tilkynnt var um átakið á vef stjórnarráðsins og fjallað nánar um það á vef sóttvarnalæknis. Átakið beinist að því að sem flestir einstaklingar fái HPV-bóluefni og verður því einungis þeim piltum í árgöngum 2008 til 2010 sem enga bólusetningu hafa fengið gegn HPV boðið bóluefni án endurgjalds.

Krabbamein í koki en ekki leghálsi

Í tilkynningu ráðuneytisins kom fram að sýnt hafi verið fram á að bólusetning við HPV sé mikilvæg leið til að fækka krabbameinstilfellum. Bólusetning gegn HPV-veirunni hófst hér á landi árið 2011, fyrst eingöngu hjá stúlkum en hefur síðan verið útvíkkuð og fyrir tveimur árum var farið að bjóða slíka bólusetningu óháð kyni fyrir tiltekna aldurshópa.

„Bóluefni gegn HPV beindust fyrst og fremst gegn leghálskrabbameini til að byrja með, enda er það langalgengast krabbameina sem tengjast HPV, en bóluefnin hafa sannað gildi sitt gegn HPV-sýkingum óháð kyni. Krabbamein sem tengjast HPV-sýkingum önnur en leghálskrabbamein eru sum algengari hjá körlum en konum, má þar nefna HPV-tengd krabbamein í koki. Þess vegna hófust bólusetningar gegn HPV-sýkingum óháð kyni hér fyrir um þremur árum,“ segir í tilkynningu

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra hafi svo ákveðið síðasta sumar að veita fjármagni til HPV-bólusetningar fyrir óbólusetta drengi upp í 18 ára aldur. Átak fyrir árgang 2010 fór af stað hjá heilsugæslu síðastliðið haust og nú fer að koma að árgöngum sem komnir eru á næsta skólastig.

Drengirnir búnir með grunnskóla

Árgangur 2010 fékk boð í bólusetningu gegnum heilsugæslu nú í haust en árgöngum 2008-2009 verður boðin bólusetning síðar í vetur. Fram kemur í tilkynningu sóttvarnalæknis að vegna þess að þessir árgangar hafa lokið sinni grunnskólagöngu séu þeir sjálfstæðir hvað varðar heilbrigðisþjónustu. Upplýsingagjöf til þeirra árganga gegnum Mínar síður Heilsuveru verði háð því að piltarnir hafi rafræn skilríki og noti sjálfir Heilsuveru.

Heilsugæsla í framhaldsskólum er með öðrum hætti en í grunnskólum, en heilsugæslan kemur að upplýsingagjöf um átakið og e.t.v. verða bólusetningar í boði í skólunum sem verður þá kynnt sérstaklega þar sem það á við. Piltar sem ekki eru í skóla eru hvattir til að fylgjast með vefsíðu heilsugæslu sem þeir eru skráðir hjá og/eða þar sem þeir eru búsettir varðandi tilkynningar um hvernig bólusetningum verður háttað þar.

Heilsugæslan á hverju svæði mun birta upplýsingar um hvenær boðið verður upp á HPV-bólusetningar á heilsugæslustöðvunum fyrir þessa árganga og hvernig fyrirkomulag verður með bókanir o.þ.h. þegar það hefur verið ákveðið, væntanlega fyrir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×