Handbolti

Ó­trú­leg ó­heppni Slóvena

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aleks Vlah í leik með Slóvenum.
Aleks Vlah í leik með Slóvenum. vísir/getty

Undirbúningur Slóveníu fyrir EM í handbolta hefur verið hreinasta martröð og ólíklegt er að annað lið hafi gengið í gegnum annað eins í undirbúningi fyrir stórmót.

Fyrir æfingaleik liðsins gegn Kúveit í gær var þegar ljóst að átta leikmenn í hópnum gætu ekki farið á EM vegna meiðsla.

Þess utan voru fjórir leikmenn til viðbótar meiddir og óvissa með framhaldið hjá einhverjum þeirra.

Til að bæta gráu ofan á svart þá meiddist stjarna liðsins, Aleks Vlah, í leiknum í gær. Meiðsli á læri sem geta verið erfið.

Öll liðin á EM geta valið úr lista 35 leikmanna og er farið að ganga ansi hraustlega á þann hóp. Því er farið að velta vöngum yfir því hvort Slóvenar muni fá undanþágu til þess að bæta við mönnum.

Slóvenar munu spila í D-riðli á EM en hann fer fram í Noregi. Andstæðingar þeirra þar eru Færeyjar, Svartfjallaland og Sviss.

Ef Slóvenar fara áfram í milliriðil verða þeir í sama milliriðli og Ísland kemst vonandi í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×