Skoðun

Leigu­bíla­markaður á kross­götum: Tæknin er lausnin ekki vanda­málið

Kristín Hrefna Halldórsdóttir skrifar

Traust almennings á leigubílaþjónustu á Íslandi hefur beðið hnekki á undanförnum árum. Endurtekin dæmi um óljósa verðlagningu sem eðlilega valda pirringi, skortur á gagnsæi og veikburða eftirlit hafa grafið undan þeirri grunnþjónustu sem leigubílar eiga að vera. Nú liggur fyrir frumvarp um breytingar á lögum um leigubifreiðaakstur. Því miður er hætt við að þær breytingar sem lagðar eru til nái ekki að takast á við rót vandans.

Í hægt er að horfa á tvær ólíkar leiðir: hefðbundnir leiugbílar sem keyra á mæli og svokallaðra farveitna líkt og Uber eða Hopp. Báðar þjónustur sinna sama grunn hlutverki að koma fólki á milli staða. Munurinn liggur í því hvernig það er gert og þar skiptir tæknin öllu máli.

Farveitur byggja þjónustu sína alfarið á hugbúnaði. Farþegi sér verð ferðar og samþykkir það áður en hann velur að kaupa hana og keyrir af stað. Ekki er hægt að breyta verðinu eftir á. Upplýsingar um bílstjóra, leiðina sem á að keyra og kvittanir eru aðgengilegar. Bílstjóri og farþegi gefa hvort öðru endurgjöf. Leyfi bílstjóra eru vottað áður en þau eru samþykkt inn í kerfi.

Í hefðbundnum leigubílaakstri þar sem ekið er eftir gjaldmæli ríkir hins vegar óvissa sem elur af sér vantraust. Farþegi veit ekki endanlegt verð fyrr en ferð lýkur. Auðkenning bílstjóra er takmörkuð og eftirlit kostnaðarsamt og að stórum hluta handvirkt. Neytandinn hefur litlar upplýsingar um gæði þjónustunnar sem hann er að kaupa.

Gjaldmælar eru barn síns tíma. Í flestum öðrum viðskiptum myndi slíkt fyrirkomulag ekki líðast. Neytendur gera kröfu um gagnsæi og fyrirfram ákveðið verð og það með réttu. Leigubílamarkaðurinn á ekki að vera undantekning frá þeirri grunnreglu.

Þið getið rétt ímyndað ykkur handalögmálin sem myndu skapast ef almenna “reglan” væri sú að það væru ekki verð á matseðlum á veitingastöðum bæjarins. Þú myndir einfaldlega giska á hvað maturinn og drykkirnir kosta og verða svo mögulega afar undrandi þegar að uppgjöri kemur og reikningurinn er miklu hærri en þú áttir von á. Neytendur gera kröfu um meiri upplýsingar á veitingastöðum og ættu að gera það líka í leigubílum landsins.

Frumvarpið sem nú er til umfjöllunar leggur meðal annars áherslu á stöðvaskyldu bílstjóra. Sú nálgun leysir hins vegar ekki þau vandamál sem hafa komið upp. Alvarleg atvik á markaðnum undanfarin misseri tengjast ekki skorti á stöðvaskyldu heldur veikri yfirsýn takmarkaðri gagnasöfnun og ófullnægjandi eftirliti. Þar skiptir meira máli hvernig upplýsingum er safnað miðlað og nýtt ekki hvaða skilti eru á bílunum.

Farveitur eru í einstakri stöðu til að styðja við opinbert eftirlit. Gögn um ferðir leiðir og viðskipti liggja fyrir í rauntíma og eru auðveldlega aðgengileg bæði fyrir notendur, þjónustuver og yfirvöld þegar þörf krefur. Slíkt umhverfi gerir raunhæft markvisst og hagkvæmt eftirlit mögulegt eitthvað sem núverandi kerfi mælanna ræður illa við.

Ef markmiðið er að endurheimta traust almennings þarf löggjöfin að horfa fram á veginn. Það kallar á að farveitur fái skýran sess í lögum með sértæku regluverki sem tekur mið af ólíku starfsumhverfi þeirra. Það kallar einnig á einfaldari og markvissari menntunarkröfur fyrir bílstjóra sem starfa eingöngu fyrir farveitur þar sem áhersla er lögð á fagmennsku, þjónustu, samskipti og öryggi ekki úreltar kröfur sem endurspegla ekki raunveruleikann.

Leigubílamarkaðurinn er mikilvægur hluti af samgöngukerfi landsins. Með því að nýta tæknina til fulls, auka gagnsæi, bæta eftirlit og lækka aðgangshindranir má efla samkeppni bæta þjónustu og auka öryggi farþega. Það er til mikils að vinna en þá þarf löggjöfin að taka mið af raunveruleikanum eins og hann er í dag ekki eins og hann var fyrir tuttugu árum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Hopp Reykjavíkur.




Skoðun

Sjá meira


×