Handbolti

Ýmir ekki sár yfir vali Loga og Kára: „Veit hvar ég stend í þessu liði“

Sindri Sverrisson skrifar
Ýmir Örn Gíslason á æfingu íslenska landsliðsins sem kom saman á föstudaginn og hefur æft í Safamýri, fyrir komandi Evrópumót.
Ýmir Örn Gíslason á æfingu íslenska landsliðsins sem kom saman á föstudaginn og hefur æft í Safamýri, fyrir komandi Evrópumót. Sýn Sport

Ýmir Örn Gíslason segir það ekki hafa verið sárt að sjá tvo af sérfræðingum RÚV, landsliðsmennina fyrrverandi Loga Geirsson og Kára Kristján Kristjánsson, kjósa að hann yrði ekki með í hópnum sem fer á EM í handbolta í næstu viku.

Ýmir er á sínum stað í EM-hópi Snorra Steins Guðjónssonar, líkt og hann hefur verið um árabil, og þessi 28 ára baráttuglaði línumaður Göppingen í Þýskalandi er eflaust staðráðinn í að láta ljós sitt skína í Svíþjóð á Evrópumótinu.

Ýmir lætur það ekki trufla sig að tveir af þremur sérfræðingum RÚV, sem fengnir voru til að velja sinn EM-hóp, hafi valið aðra umfram hann.

„Hver og einn hefur sína skoðun. Það er bara gott og blessað. En það er Snorri sem velur hópinn. Ég tel mig vera með mikla reynslu og geta hjálpað liðinu á marga vegu,“ sagði Ýmir í viðtali við Val Pál Eiríksson á föstudaginn.

En var ekki sárt að fá þessi skilaboð frá Kára og Loga?

„Alls ekki. Ég veit hvar ég stend í þessu liði, mína reynslu og mína getu. Ég veit það manna best,“ sagði Ýmir en viðtalið við hann í heild má sjá hér að neðan.

Klippa: Ýmir spenntur fyrir EM

Ísland spilar fyrsta leik sinn á EM gegn Ítölum þarnæsta föstudagskvöld en spilar fyrst við Slóveníu á æfingamóti í Frakklandi á föstudaginn, og svo gegn Frökkum eða Austurríkismönnum á sunnudaginn. Eftir það tekur EM við með leikjum við Ítalíu 16. janúar, Pólland 18. janúar og Ungverjaland 20. janúar, og svo vonandi leikjum í milliriðli í kjölfarið.

Ýmir er varkár varðandi allt tal um hvaða kröfur sé hægt að gera á íslenska liðið en benti á að í þetta sinn væru allir helstu lykilmenn liðsins ómeiddir:

„Mér finnst hópurinn frábær. Það eru allir heilir að mér skilst, sem er númer eitt, tvö og þrjú. Það hefur ekki alltaf verið þannig. Vonandi helst það þannig og þá eru okkur allir vegir færir.“


Tengdar fréttir

Strákarnir eigi að stefna á verðlaun

Kristján Örn Kristjánsson er á leið til Danmerkur til að fá leyst úr kviðsliti á komandi dögum á meðan félagar hans í karlalandsliðinu í handbolta fara á EM. Donni segir að íslenska liðið eigi að stefna hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×