Skoðun

Þögnin sem ég hélt að myndi bjarga mér

Steindór Þórarinsson skrifar

Ástæðan fyrir því að ég endaði á að skrifa þennan pistil og fór að lesa mig betur til um þetta er einföld. Ég er að skríða út úr fjögurra vikna þunglyndi þar sem ég lokaði mig af frá umheiminum. Ég náði rétt svo að mæta í auka vinnu, en ég brást mörgum í þetta skiptið. Vinum, viðskiptavinum og sjálfum mér.

Verst situr í mér eitt. Ég hvarf úr samskiptum við besta vin minn á sama tíma og hann var að eignast barn. Hann þurfti á mér að halda. Okkur hlakkaði til. En ég lokaði á hann. Hann er núna sár og ég skil það. Ég get ekki breytt fortíðinni.

Þetta er kjarni málsins og ástæðan fyrir því að ég skrifa. Ekki til að biðja um vorkunn. Ekki til að setja mig í fórnarlambshlutverk. Heldur til að tala um ábyrgð og um það sem fólk oft misskilur þegar einhver lokar á.

ADHD og áfallastreita er mín ástæða, en ekki afsökun. Ég þarf að bera ábyrgð á mínu, þó þetta sé ekki mér að kenna.

Ég er viðurkenndur markþjálfi og hef í 20 ár grúskað í mannlegu eðli og huganum. En þekking gerir manneskju ekki ósnertanlega. Ég er ekki vél. Ég er manneskja. Ég er með ADHD og hef verið að vinna í áfallastreitu í tæp tvö ár. Ég þekki einmannaleikann. Ég þekki skömmina. Ég þekki líka þetta sérstaka augnablik þegar taugakerfið segir stopp og allt inni í manneskju lokast.

Að utan lítur þetta oft út eins og kuldi. Þögn. Seinkun. Engin svör. Einhver sem mætir ekki. Einhver sem hverfur.

Að innan getur þetta verið neyðarviðbragð. Oförvun. Þreyta sem er ekki bara þreyta. Heilinn að reyna að verja sig gegn því að brotna niður á staðnum. Það breytir ekki afleiðingunum, en það breytir því hvernig við eigum að lesa hegðunina. Það er munur á því að einhver hunsi þig af áhugaleysi og því að einhver lokist af af því að viðkomandi ræður ekki við meira.

Samt er mikilvægt að segja þetta upphátt. Þessi lokun getur sært fólk og hún getur eyðilagt traust. Ég veit það, því ég hef gert það sjálfur.

Þess vegna er þetta ástæða en ekki afsökun.

Ég þarf að gera tvo hluti á sama tíma. Fyrst þarf ég að skilja hvað gerðist, svo ég endurtaki það ekki eins oft. Svo þarf ég að bæta það sem ég klúðraði. Ekki með langri útskýringu sem á að slétta yfir, heldur með verkum. Með því að hafa samband. Með því að biðjast afsökunar þar sem ég brást og laga það sem hægt er að laga. Með því að taka ábyrgð á því sem ég skildi eftir.

Og ef þú ert aðstandandi, vinur, vinkona, samstarfsfélagi eða maki einhvers sem lokar á, þá vil ég segja þetta skýrt. Þetta er ekki alltaf persónulegt. Stundum er þetta ekki um þig. En þú mátt samt vera sár. Þú mátt samt setja mörk. Skilningur á taugakerfinu á ekki að þýða að allt sé leyfilegt.

Sú leið sem virkar best, af minni reynslu, er einföld. Ekki gera þetta að valdabaráttu í miðri lokun. Ekki heimta skýringar á sekúndunni. Sendu stutt skilaboð sem lækka spennu, ekki hækka hana. Svo er hægt að tala þegar kerfið er komið niður.

Ég er að skrifa þetta bæði fyrir þau sem standa fyrir utan og skilja ekki og fyrir þau sem standa inni í þessu og halda að þau séu ein. Þú ert ekki ein. Þú ert ekki einn. En þú berð samt ábyrgð á því sem þú gerir þegar þú ert ekki í lagi.

Ég skrifaði ítarlegri grein á mína síðu þar sem ég fer dýpra í þetta, hvernig þessi lokun virkar, hvernig hún skekkir samskipti og hvað getur hjálpað áður en botninn dettur úr. Hún er fyrir öll sem vilja skilja betur og bregðast betur við, bæði með sjálfum sér og öðrum.

Ég get ekki breytt fortíðinni. En ég get mætt í dag. Og ég get hætt að láta þögnina tala fyrir mig.

Höfundur er viðurkenndur markþjálfi hjá Mitt Hugskot




Skoðun

Sjá meira


×