Innlent

Ekki hægt að úti­loka að Banda­ríkin beiti valdi á Græn­landi

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor segir smáríki eiga að tala fyrir mikilvægi alþjóðastofnana því þar hafi þau rödd.
Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor segir smáríki eiga að tala fyrir mikilvægi alþjóðastofnana því þar hafi þau rödd. Vísir/Vilhelm

Prófessor í stjórnmálafræði segir að taka þurfi orð forseta Bandaríkjanna um Grænland og hans ásælni alvarlega. Í ljósi framgöngu Bandaríkjastjórnar í Venesúela sé ekki hægt að útiloka að Bandaríkin beiti valdi til þess að ná yfirráðum yfir Grænlandi.

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, var á blaðamannafundi í gær spurður hvaða þýðingu nýafstaðin árás á Venesúela hefði fyrir Grænlendinga. Hann svaraði því til að Bandaríkin þyrftu Grænland, það væri engin spurning. Þau þyrftu Grænland í þágu varna. Bæði Jens Fredrik Nielsen, formaður landsstjórnar Grænlands, og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hafa gefið út harðorðar yfirlýsingar vegna málsins. Nielsen krafðist þess að Bandaríkjastjórn léti af þrýstingi sínum og benti á að það væri vanvirðing fólgin í því að tengja Grænland við Venesúela og hernaðaríhlutun. Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, var beðinn um að gefa sitt áhættumat fyrir Grænlendinga.

„Ég held við verðum að taka orð Trumps og hans helstu ráðherra alvarlega. Þeir boða allsherjaryfirráð Bandaríkjanna yfir vesturhveli jarðar þar sem Grænland fellur klárlega undir og Ísland að hluta til líka. Það að Trump hafi sagt að hann ætli sér að taka yfir Grænland og skipi erindreka með það eina markmið að ná völdum yfir Grænlandi er mjög alvarleg staða, eins og komið hefur fram í máli leiðtoga Dana og Grænlendinga og það má líka minna á það að Danmörku stafar ógn af Bandaríkjunum og í ljósi síðustu atburða er ekki hægt að útiloka það að Bandaríkin beiti valdi til þess að ná yfirráðum yfir Grænlandi.“

Þá var Baldur beðinn um að leggja mat á skilaboð Íslands vegna Venesúela.

„Fyrstu viðbrögð íslenskra stjórnvalda voru að fagna handtöku forsetans og þessum árásum, sem var eftirtektarvert, en síðan hefur nokkuð verið dregið í land og í auknum mæli verið að vísa í að fylgja alþjóðalögum. Ég myndi nú segja það að lítið ríki eins og okkar eigi allt undir því að alþjóðalög og fullveldi ríkja séu virt, að stór ríki fari að þeim leikreglum sem hafa viðgengist í alþjóðakerfinu á undanförnum árum. Við erum, því miður fyrir okkur og önnur lítil ríki, í vaxandi mæli að hverfa frá því og stóru ríkin fara fram eins og þeim þóknast. Það er mjög erfið staða fyrir okkur. Við verðum ekki spurð álits í alþjóðasamfélaginu þegar mál þróast með þeim hætti.“

Framganga Bandaríkjastjórnar í Venesúela væru ekki góðar fréttir fyrir smáríki heimsins.

„Þessi árás bandaríkjanna á Venesúela er skýrt brot á stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og fullveldi Venesúela, hvað sem manni finnst um þá ógnarstjórn sem hefur ríkt í Venesúela. Stjórnin hefur vissulega rústað landinu en þetta er samt brot á stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það eru nú margir harðstjórar í heiminum og ef stór ríki heims ætla að fara fram með þessum hætti og ekki ráðfæra sig við alþjóðastofnanir sem geta gefið heimildir til svona árása og handtöku, þá er illa komið fyrir okkur og meginþorri ríkja heims sem eru lítil ríki verða ekki spurð ráða og eru ekki með í þessu heldur verða einfaldlega að fara að vilja þeirra. Það er ekki góð staða fyrir okkur og ég tala nú ekki um það þegar bandarísk stjórnvöld hafa sagst ætla að hafa algjör yfirráð yfir okkar heimshluta.“

Baldur var spurður hvað leiðtogar smáríkja gætu gert til þess að styrkja stöðu sína nú á viðsjárverðum tímum.

„Þau geta lagt áherslu á svæðisbundnar stofnanir og alþjóðastofnanir og mikilvægi þeirra í að ákveða aðgerðir sem þessar, smáríki njóta skjóls af alþjóðastofnunum. Innan alþjóðastofnana hafa smáríki rödd. Það hefur hingað til verið tekið tillit til skoðana þeirra, það besta sem við getum gert í svona málum er að tala fyrir mikilvægi Sameinuðu þjóðanna, tala fyrir mikilvægi Atlantshafsbandalagsins, tala fyrir mikilvægi Evrópusambandsins, EFTA og Norðurlandsráðs því þessar alþjóðastofnanir þær gefa okkur helst rödd og það er miklu betra fyrir okkur að vinna þar með ríkjum sem hafa áþekkar skoðanir og okkar heldur að reyna einhliða að hafa áhrif á stefnu Bandaríkjastjórnar.“


Tengdar fréttir

„Ísland stendur þétt með vinum sínum“

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra er meðal þeirra norrænu leiðtoga sem lýst hafa yfir stuðningi við Grænland og Danmörku í framhaldi af enn einum ummælum Bandaríkjaforseta þar sem hann lýsir ósk sinni um að eignast Grænland.

„BRÁÐUM“

„BRÁÐUM“ skrifar Katie Miller, fyrrverandi fjölmiðlafulltrúi úr ríkisstjórn Trumps, hástöfum í færslu á X í gær þar sem hún birtir kort af Grænlandi sem er málað með bandarískum fánalitum.

„En við þurfum samt Grænland“

Donald Trump Bandaríkjaforseti var myrkur í máli þegar blaðamaður innti hann eftir því hvaða þýðingu nýafstaðin árás á Venesúela og handtaka á forseta landsins hefði fyrir Grænlendinga. Hann ítrekaði samt mikilvægi þess að Bandaríkin innlimi Grænland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×