Handbolti

Ágúst vann tvö­falt á hófi Í­þrótta­manns ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ágúst Þór Jóhannsson tekur við verðlaunum sínum í kvöld.
Ágúst Þór Jóhannsson tekur við verðlaunum sínum í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Ágúst Þór Jóhannsson var sigursæll á hófi Samtaka Íþróttafréttamanna í Hörpu í kvöld þar sem lýst var kjöri Íþróttamanns ársins 2025. Ágúst vann tvenn verðlaun.

Ágúst var bæði kjörinn þjálfari ársins og þá fékk liðið sem hann þjálfaði, kvennalið Vals í handbolta, útnefninguna lið ársins.

Ágúst er nú fyrrverandi þjálfari Valskvenna en hann hætti með liðið í sumar og tók í staðinn við karlaliði Vals sem er á toppi Olís-deildar karla um áramótin.

Þrefaldir meistarar

Ágúst gerði Valskonur að fjórföldum meisturum á síðasta tímabili, 2024-25. Kvennalið Vals vann Íslandsmeistaratitilinn þrjú síðustu tímabil hans með liðið og fjórum sinnum alls undir hans stjórn.

Liðið varð Íslandsmeistari og deildarmeistari en kórónaði síðan magnað tímabil með því að vera fyrsta íslenska kvennaliðið til að verða Evrópumeistari.

Valsliðið varð Evrópubikarmeistari eftir eins marks 25-24 sigur á Porrino frá Spáni í seinni úrslitaleik félaganna sem var spilaður á Hlíðarenda.

Efstu í kjörinu

Annar í kjörinu á þjálfara ársins varð Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Króatíu í handbolta. Ágúst hlaut 97 stig en Dagur fékk 71 stig. Heimir Hallgrímsson, þjálfari írska karlalandsliðsins í fótbolta, varð síðan þriðji með 38 stig.

Kvennalið Breiðabliks í fótbolta, sem vann þrefalt eins og Valur, varð í öðru sæti í kjörinu á liði ársins. Valur fékk þó yfirburakosningu eða 123 stig á móti 64 stigum hjá Blikunum. Karlalið Fram í handbolta varð síðan í þriðja sætinu með 44 stig.

Fulltrúar kvennaliðs Vals taka við verðlaununum en þetta eru þær Hildigunnur Einardóttir, Hildur Björnsdóttir, Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Lovísa Thomsen og Hafdís Renötudóttir.Vísir/Hulda Margrét



Fleiri fréttir

Sjá meira


×