Neytendur

Vestur­bæingar sólgnir í ís en Hafn­firðingar fara oftast í bíó

Agnar Már Másson skrifar
Tryggvi Björn Davíðsson er framkvæmdastjóri indó. Félagið hefur gefið út „Árið mitt“ þar sem hver viðskiptavinur getur rýnt í neysluvenjur sínar.
Tryggvi Björn Davíðsson er framkvæmdastjóri indó. Félagið hefur gefið út „Árið mitt“ þar sem hver viðskiptavinur getur rýnt í neysluvenjur sínar.

Vesturbæingar kaupa hlutfallslega oftast ís af öllum á meðan Hafnfirðingar fara oftast í bíó, samkvæmt samantekt sparisjóðsins Indó á neysluvenjum notenda.

Indó gaf í gær út Árið mitt (í anda Spotify Wrapped) í nýrri uppfærslu af appi sparisjóðsins. Þar geta viðskiptavinir Indós séð í hvað launin þeirra fóru á árinu auk þess sem dregnar eru fram ýmsar staðreyndir um neysluvenjur þeirra.

Í tilkynningu frá sparisjóðnum kemur fram að viðskiptavinir geti séð er hversu oft þeir hafi farið í ísbúð, notað strætó eða borðað á veitingastöðum á árinu. Ein vinsælasta samantektin hafi þó reynst yfirlit yfir hversu miklu var eytt í mat að meðaltali á mánuði. Þegar hafa rúmlega 20.000 viðskiptavinir Indós nú þegar skoðað samantektina, samkvæmt tilkynningu frá Indó.

Haft er eftir Tryggva Birni Davíðssyni, framkvæmdastjóra Indós, að Vesturbæingar hafi, samkvæmt samantektinni, fengið sér hlutfallslega oftast ís af öllum viðskiptavinum, á meðan Hafnfirðingar fóru oftast í bíó. Í samantektinni er einnig dregið hversu mikla vexti viðskiptavinir fengu greidda og hversu mikið þeir spöruðu á því að sleppa að borga gengisálag og færslugjöld á árinu með því að nota Indó í stað hefðbundinna banka.

Enn fremur er haft eftir framkvæmdastjóranum að viðskiptavinir bankans hafi sparað rúmlega 1,3 milljarða króna af svokölluðum „bullgjöldum“ á árinu 2025, þar af 920 milljónir í gengisálagi og 392 milljónir í færslugjöldum.

 „Þetta er rúmlega 40% aukning frá því í fyrra, enda telja nú viðskiptavinir Indós nær 100.000 manns,” er haft eftir Tryggva í niðurlagi tilkynningarinnar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×