Skoðun

Gerið Ást­hildi Lóu aftur að ráð­herra

Einar Steingrímsson skrifar

Svo virðist sem Guðmundur Ingi Kristinsson hafi ekki í hyggju að snúa aftur í mennta- og barnamálaráðuneytið, að minnsta kosti ekki í bráð. Því er nú rétti tíminn til að Ásthildur Lóa Þórsdóttir taki aftur við því.

Ásthildur Lóa hraktist úr embætti vegna falsfréttar sem RÚV birti um samband hennar við mann sem var fullorðinn að lögum þegar barn þeirra kom undir, öfugt við það sem fréttastofa RÚV gaf til kynna. Auk þess fullyrti fréttastofan einnig, án þess að hafa nokkuð áreiðanlegt fyrir sér í því, að hún hefði verið í einhvers konar leiðtogastöðu gagnvart manninum.

Því miður virtust forystukonur ríkisstjórnarinnar hafa misst sitt annars annálaða kúl, því þær leyfðu þrýstingnum af ósannindum RÚV að verða til þess að Ásthildur Lóa sagði af sér, sem var í sjálfu sér rétt ákvörðun hjá henni þegar hún hafði ekki þann stuðning sem hún þurfti.

Það er langt síðan rykið settist, langt síðan almenningi varð ljóst að þarna var um að ræða svívirðilega aðför, og það af hálfu stofnunar í eigu almennings sem á að segja vandaðar fréttir en ekki fara með ósannindi um alvarleg mál. Því er nú tími til kominn að Ásthildur Lóa verði aftur gerð að ráðherra, til að sýna að ekki verði hægt að taka fólk niður með því að birta falsfréttir.

Auðvitað ættu Kristrún, Þorgerður Katrín og Inga Sæland að lýsa yfir að þær hafi gert alvarleg mistök þegar þær leyfðu þessu að gerast á sínum tíma, og biðjast afsökunar á því.

Samtímis væri við hæfi að Stefán Eiríksson útvarpsstjóri tilkynnti í væntanlegu ávarpi sínu á gamlarśdag að hann og Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttastjóri segðu af sér vegna ábyrgðar sinnar á þessum alvarlega falsfréttaflutningi.

Höfundur er stærðfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×