Innlent

Morgun­dagurinn sá stysti á árinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Eftir morgundaginn byrja dagarnir að verða lengri hér á landi.
Eftir morgundaginn byrja dagarnir að verða lengri hér á landi. Vísir/Vilhelm

Dagurinn á morgun, sunnudagur, verður sá stysti á árinu á norðurhveli jarðarinnar. Hér á Íslandi fáum við dagsbirtu í eingöngu rétt rúma fjóra tíma á morgun en við getum þó huggað okkur við það að eftir það verður hver dagurinn lengri en sá sem kom á undan.

Sólstöður eru, eins og flestir vita, tvisvar sinnum á ári. Sumarsólstöður eru í seinni hluta júní þegar sólin fer hæst á loft og vetrarsólstöður eiga sér stað skömmu fyrir jól í desember, þegar sólin fer lægst á loft á norðurhveli.

Vetrarsólstöður verða nánar tiltekið klukkan 15:03 í Reykjavík á morgun. Sólris verður klukkan 11:22 á morgun og sólarlag verður 15:30, samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofunnar. Íslendingar munu því upplifa rúma fjóra tíma af dagsbirtu, ef svo má kalla.

Á suðurhveli jarðar er dagurinn sá lengsti á árinu.

Næstu daga verða dagarnir lengri, þótt það gerist frekar hægt. Á nýársdag verður sólris í Reykjavík klukkan 11:19 og sólarlag klukkan 15:44 og hefur dagurinn þá strax lengst um heilar sautján mínútur, aftur samkvæmt Veðurstofunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×