Menning

Vangreiðslugjald orð ársins 2025

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Skilti frá Parka þar sem fólk er minnt á að greiða samdægurs, annars leggist viðbótargjald á sektina - vangreiðslugjald.
Skilti frá Parka þar sem fólk er minnt á að greiða samdægurs, annars leggist viðbótargjald á sektina - vangreiðslugjald. Vísir/Vilhelm

Árnastofnun hefur valið orðið vangreiðslugjald sem orð ársins í ár. Um er að ræða gjald sem bílastæðafyrirtæki innheimta þegar ekki er greitt fyrir gjaldskylt bílastæði innan tiltekins tímaramma. Önnur orð sem komu til greina voru tollastríð, fjölþáttaógnir, gímald, kjarnorkuákvæði, frelsisfloti, ofbeldisvandi og vók/vókismi.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur frá árinu 2018 valið orð ársins á grundvelli gagna sem stofnunin safnar um málnotkun jafnt og þétt allt árið. Árið 2022 var orðið innrás valið, þar á eftir orðið gervigreind og svo í fyrra varð hraunkæling fyrir valinu.

„Við valið er tölfræðilegum aðferðum beitt til að greina þau orð sem eru áberandi í málinu og velja úr orð sem koma til greina. Með hliðsjón af þessum gögnum er síðan orð ársins ákveðið,“ segir um aðferðafræðina í tilkynningu frá Árnastofnun.

Önnur orð sem komu til greina við val á orði ársins voru: tollastríð, fjölþáttaógnir og fjölþáttaárásir, gímald, kjarnorkuákvæði, skuggafloti og frelsisfloti, ofbeldisvandi, gervigreindarkapphlaup, virðismat og vók/vókismi.

Orðið vangreiðslugjald hefur verið áberandi í tengslum við umræðu um bílastæðamál og var réttmæti gjaldsins umdeilt. Um er að ræða gjald sem bílastæðafyrirtæki innheimta þegar ekki er greitt fyrir gjaldskylt bílastæði innan tiltekins tímaramma. Ef greiðsla berst ekki innan tilskilins tíma er rukkun send til skráðs eiganda ökutækisins og vangreiðslugjaldið leggst ofan á stöðugjaldið.

„Þótt orðið vangreiðslugjald sé tiltölulega nýtt má finna það í fréttum um bílastæðamál á árunum 2011 og 2018. Orðið vangreiðsla er þó ekki nýtt en er algengara í lagamáli en almennu máli. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er vangreiðsla skýrt sem ’of lág greiðsla’,“ segir í tilkynningu Árnastofnunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.