Neytendur

Sektað um hundruð þúsunda fyrir nikótínauglýsingar

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
SH Import ehf. var sektað um fjögur hundruð þúsund krónur.
SH Import ehf. var sektað um fjögur hundruð þúsund krónur. Vísir/Lýður Valberg

Neytendastofa hefur gert SH Import ehf., sem á verslunina Piknik, að greiða fjögur hundruð þúsund króna sekt fyrir að fjarlægja ekki nikótínauglýsingar innan tilskylds tíma. Fyrirtækið hefur áður verið sektað um tvö hundruð þúsund krónur fyrir nikótínauglýsingar.

Neytendastofa sektaði fyrirtækið um tvö hundruð þúsund krónur þann 19. júní 2024 fyrir að auglýsa nikótínvörur, rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur. Í úrskurðinum kom fram að fyrirtækið hefði fjórar vikur til að fjarlægja allt slíkt markaðsefni. 

Í lok maí árið 2025 hafði Neytendastofa aftur samband við fyrirtækið þar sem þau höfðu orðið vör við að enn væru uppi myndmerki sem auglýstu nikótínvörur, bæði utan á verslunum, á forsíðu vefverslunarinnar og á Instagram-síðum þeirra. 

Tæpum tveimur vikum síðar svöruðu forsvarsmennirnir og sögðu að allar slíkar auglýsingar hefðu verið fjarlægðar og allar verslanir endurmerktar. Neytendastofa óskaði eftir ljósmyndum til staðfestingar, en fengu ekki svar fyrr en nokkrum vikum síðar, þá búin að ítreka beiðnina.

Í ljós kom að auglýsingarnar sem höfðu verið á verslunum Piknik og Bitans höfðu verið fjarlægðar en á vefsíðu félagsins var búið að setja hvítan bakgrunn yfir myndmerki fyrirtækisins. Bakgrunnurinn reyndist vera gagnsær og myndmerkið því enn sýnilegt. 

Þar sem að auglýsingar SH Import höfðu verið fjarlægðar mun síðar en þær fjórar vikur sem það hafði árið 2024 var þeim gert að greiða fjögur hundruð þúsund króna sekt. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×