Skoðun

Ljósa­dýrð loftin gyllir

Hrefna Sigurjónsdóttir skrifar

Senn nálgast áramót og þá hefur skapast sú hefð að kveðja gamla árið með ljósadýrð og hvelli. Í hugum margra eru flugeldar ómissandi hluti af áramótunum en þeir eru ekki hættulausir og mikilvægt að fara að öllu með gát svo gleðin snúist ekki í angist þegar nýtt ár gengur í garð.

Fjöldi útkalla vegna flugelda hefur stóraukist

Athygli vekur að samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur fjöldi útkalla slökkviliða vegna flugelda stóraukist en um síðustu áramót var 50% hækkun í útköllum vegna flugelda ef horft er til síðustu tveggja ára á undan. Þar má helst horfa til tvöföldunar á útköllum vegna elds utan bygginga, s.s. í gámum, sorptunnum og álíka stöðum. Mikilvægt er að gæta þess að slökkt sé í flugeldum áður en þeim er hent og leiðbeiningum um notkun fylgt til að tryggja öryggi viðstaddra. Ekki skal skilja eftir ósprungna flugelda og flugeldarusl á víðavangi, slíkt getur valdið slysum og einnig hlýst af því sóðaskapur.

Aðgát skal höfð í nærveru flugelda

Mikilvægt er að gæta þess að vera aldrei í skotlínunni þegar kveikt er í flugeldum. Ávallt skal nota hlífðargleraugu (flugeldagleraugu) og einnig er gott að hafa vettlinga eða hanska til að hlífa höndum. Aldrei skal kveikja í flugeldum á meðan haldið er á þeim. Það má eingöngu halda á sérmerktum handblysum og jafnvel þá þarf að fara varlega og vera í hönskum. Einnig er nauðsynlegt að halda hæfilegri fjarlægð þegar kveikt er í flugeldum og aldrei má halla sér yfir þegar kveikt er í. Velja þarf trausta undirstöðu þegar skotið er upp og best er að skjóta upp flugeldum á opnu svæði í a.m.k. 20 metra fjarlægð frá húsum, bifreiðum og fólki.

Hafa ber í huga að flugeldar eru ekki leikföng. Oft gleymist að flugeldar eru í raun sprengiefni og flest alvarlegustu slysin verða þegar fiktað er við flugelda eða þeir teknir í sundur. Foreldrar og forráðamenn þurfa að hafa þetta í huga, brýna fyrir börnum að fikta ekki í flugeldum og fylgjast vel með þegar kveikt er í flugeldum. Hjá Öryggisakademíu Landsbjargar eru margar góðar ábendingar og skemmtileg myndbönd fyrir yngri kynslóðina en í gátlistanum fyrir öryggisfulltrúa er talað um að einhver fullorðinn taki að sér hlutverk skotstjóra. Vert er að nefna að áfengi og flugeldar fara aldrei saman.

Geymsla flugelda

Flugelda á að geyma á þurrum stað þar sem börn ná ekki til. Ekki er gott að geyma flugelda lengi og ekki er mælt með að geyma þá milli ára. Ef um mikið magn er að ræða þarf að geyma þá í traustum geymslum. Hægt er að fara með flugeldarusl og flugelda í endurvinnslustöðvar Sorpu til förgunar og setja þá í spilliefnagám.

Svifryksmengun hefur áhrif á heilsufar

Flugeldum fylgir loftmengun og svifryk sem myndast við sprengingar flugelda veldur mestum heilsufarsáhrifum. Þeir einstaklingar sem eru viðkvæmastir fyrir loftmengun eru aldraðir, börn og fólk með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma og hjarta- og æðasjúkdóma. Æskilegast er fyrir viðkvæma að vera innandyra þegar mestu sprengingarnar eru og loka gluggum. Veður hefur mikil áhrif á hvort mengunin safnist upp eða ekki og ef veður er stillt og úrkomulaust geta loftgæði orðið mjög léleg. Þá er enn meiri ástæða fyrir þau sem eru viðkvæm fyrir loftmengun að vera innandyra. Í flugeldum eru ýmiss konar efni sem berast út í umhverfið og því er gott að spyrja seljendur hvort flugeldarnir standist kröfur um efnainnihald og athuga hvort þeir séu CE merktir, en einungis er leyfilegt að selja CE merkta flugelda á Íslandi.

Hugum vel að dýrunum

Mikilvægt er að hlúa vel að dýrum um áramótin en hávaðinn sem myndast við sprengingar flugelda getur gert þau skelfingu lostin. Fjöldamörg dæmi eru um að hestar, hundar og kettir hafi fælst við flugelda og hlaupið af stað til fjalla eða í veg fyrir bílaumferð. Dýraeigendur eru því hvattir til að kynna sér hvað sé hægt að gera til að draga úr vanlíðan dýra og slysahættu á þessum tíma.

Best er að halda köttum inni dagana í kringum áramót og hafa hunda ávallt í taumi þegar þeir fara út, jafnvel þótt það sé aðeins út í garð. Best er að viðra hunda snemma dags í birtu svo þeir verði þreyttir um kvöldið og ef þeir eru mjög hræddir þá getur verið gott að fara í göngu fjarri þéttbýli. Ef dýr sýna mikla hræðslu á ekki að skilja þau ein eftir og gott getur verið að hafa tónlist í gangi og ljósin kveikt til að draga úr ljósaglömpum. Einnig er hægt að fá lyktarhormón sem ætlað er að draga úr streitu og kvíða. Sýna þarf sérstaka aðgát með ung dýr sem eru að upplifa sín fyrstu áramót. Frekari ráðleggingar er m.a. að finna á vef MAST og hjá dýralæknastofum, Kattholti, Dýrfinnu og fleiri aðilum sem láta sig velferð dýra varða.

Vert er að minna á að einnig er mikilvægt að fylgja reglugerð stjórnvalda um notkun flugelda en þá má aðeins sprengja dagana 28. desember til 6. janúar. Á því tímabili sem almenn notkun skotelda er leyfð er meðferð þeirra þó alltaf bönnuð frá kl. 22.00 til kl. 10.00 daginn eftir að undanskilinni nýársnótt.

Gleðilegt nýtt ár

Ef við tökum öll höndum saman og hugum að öryggi og góðri umgengni stuðlar það að ánægjulegu upphafi komandi árs. Sölustaðir Slysavarnafélagsins Landsbjargar opna 28. desember nk. og rennur ágóði af flugeldasölu til styrktar mikilvægu starfi björgunvarsveita um land allt. Flugeldasala er mikilvæg fjáröflun fyrir björgunarsveitir landsins en fyrir þau sem kjósa að sleppa flugeldum en vilja styrkja þetta mikilvæga starf má m.a. benda á Rótarskot Landsbjargar sem gefur af sér tré sem er gróðursett í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands.

Gleðilegt nýtt ár með ósk um ánægjuleg áramót.

Höfundur er verkefnastjóri forvarna hjá Sjóvá.




Skoðun

Sjá meira


×