Innlent

Les­stofu Borgarskjalasafnsins lokað

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Anna Dröfn Ágústsdóttir sagnfræðingur að störfum á Borgarskjalasafninu.
Anna Dröfn Ágústsdóttir sagnfræðingur að störfum á Borgarskjalasafninu. Vísir/Vilhelm

Lesstofu Borgarskjalasafns á Tryggvagötu hefur formlega verið lokað. Öll starfsemi safnsins verður færð yfir á Þjóðskjalasafnið á næsta ári í sparnaðarskyni.

Í mars árið 2023 samþykkti borgastjórn tillögu Dags B. Eggertssonar, þáverandi borgarstjóra, um að skilgreind lögbundin verkefni Borgarskjalasafns yrðu flutt til Þjóðskjalasafns Íslands. Borgarskjalasafnið yrði lagt niður í núverandi mynd í sparnaðarskyni. Ákvörðunin var umdeild en var að lokum samþykkt með ellefu atkvæðum gegn tíu.

Þá var ákvörðunin einnig umdeild og sagði Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður í yfir 35 ár, að ákvörðunin væri metnaðarlaus og myndi setja starfið áratugi aftur í tímann. Safnið, sem er héraðsskjalasafn Reykvíkinga, geymir gríðarlegt magn upplýsinga en gögnin telja tíu kílómetra.

Lesstofunni var lokað í dag en áætlað er að safninu á Tryggvagötu verði lokað 1. mars 2026. Þá eru lok frágangs og afhending safnkosts í fjargeymslu í Vatnagörðum áætluð 1. nóvember á næsta ári. Fyrst stóð til að ljúka frágangnum 1. nóvember 2025 en því var frestað um ár meðal annars þar sem pappírssafnkostur hefur þarfnast mun meiri yfirferðar.

Í tilkynningu á heimasíðu safnsins segir að enn verði hægt að senda fyrirspurnir og verður öllum erindum svarað.


Tengdar fréttir

Sagnfræðingar ósáttir við mögulega lokun Borgarskjalasafnsins

Sagnfræðingar eru ósáttir við að mögulega verði Borgarskjalasafnið lagt niður í núverandi mynd og segja meinlegt að þetta sé gert án samráðs við borgarskjalavörð eða aðra fagmenn. Ekki megi draga úr getu til varðveislu og miðlunar sögunnar og „ekki síst á tímum upplýsingaóreiðu og falsfrétta“.

„Galið og algert óráð“ að loka Borgarskjalasafni

Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn, segir að það sé algert óráð og galið að loka Borgarskjalasafni. Það sé ýmislegt sem vanti upp á til að hægt sé að taka jafn afdrifaríka ákvörðun og þessa. Þá gæti hún haft í för með sér óafturkræfar afleiðingar og valdið miklum skaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×