Menning

Konungur bóksölunnar á í vök að verjast

Jakob Bjarnar skrifar
Sá sem gat séð þetta fyrir, að Ævar Þór yrði á toppi bóksölulistans með barnabók, en ekki Arnaldur sem er með gegnheilan krimma, hefði þurft að búa yfir skotheldri skyggnigáfu.
Sá sem gat séð þetta fyrir, að Ævar Þór yrði á toppi bóksölulistans með barnabók, en ekki Arnaldur sem er með gegnheilan krimma, hefði þurft að búa yfir skotheldri skyggnigáfu. Arnþór Birkisson

Vísir birtir glænýjan bóksölulista Félags íslenskra bókaútgefenda og felur hann í sér söguleg tíðindi. Æsast nú leikar þegar rétt rúm vika er til jóla.

Skólastjóri Ævars Þórs Benediktssonar heldur fyrsta sætinu aðra vikuna í desember og hefur enn á ný slegið nýtt bóksölulistamet þar sem hann hefur setið samfellt í fyrsta sæti listans í október, nóvember og fyrstu tvær vikurnar í desember. 

Þetta segir Bryndís Loftsdóttir framkvæmdastjóri Fíbút og hún veit um hvað hún er að tala. 

„Þessu til viðbótar þá hefur það aldrei áður gerst að barnabók leiði listann í annarri viku desember mánaðar frá því að ég tók við listanum árið 2013. Frá þeim tíma hefur barnabók þrisvar sinnum verið í öðru sæti listans, síðast árið 2019 þegar Þinn eigin tölvuleikur eftir Ævar Þór skákaði öllum nema konungi bóksölunnar, Arnaldi Indriðasyni. Þess má geta að Bóksölulistar Félags íslenskra bókaútgefenda frá árinu 2013 eru aðgengilegir á heimasíðu félagsins.

Það má greina spennu í rödd Bryndísar, hér virðast sögulegir viðburðir í uppsiglingu.

Mikil spenna í glæpasagnadeildinni

„Það dregur einnig til tíðinda á glæpasögulistanum þar sem Syndafall Yrsu Sigurðardóttur tyllir sér upp fyrir Tál Arnaldar Indriðasonar. Bókakápa Syndafallsins er ein sú flottasta í ár og fékk á dögunum tilnefningu til Íslensku bókahönnunarverðlaunanna í flokki kápumynda. Það var hinn margreyndi Ragnar Helgi Ólafsson sem hannaði kápuna,“ segir Bryndís.

 Nú, nú, aðrir góðkunningjar glæpasagnaunnenda fylgja í kjölfarið, Ragnar Jónasson og Katrín Jakobsdóttir með Franska spítalann, Eva Björg með Allar litlu lygarnar og Stefán Máni með Hina helgu kvöl. 

„Auk þess er óhætt að nefna Reynir Finndal Grétarsson með blóðlöðrandi fjöldamorðstryllinn Líf sem nýgræðing ársins, bók hans situr í sjöunda sæti glæpasagnalistans,“ segir Bryndís. Og gaman er að geta þess að Vísir mun birta viðtal við Reyni á fimmtudaginn, en hann kemur með hvelli inn í bókabransann.

Ólafur Jóhann erfiður viðureignar á skáldsagnalistanum

Kvöldsónta Ólafs Jóhanns Ólafssonar er mest selda skáldsaga síðustu viku og jafnframt önnur mest selda bók vikunnar. 

Skálkasagan Vegur allrar veraldar eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur er í öðru sæti og Sjá dagar koma eftir Einar Kárason í þriðja sæti.

„Líffræðingurinn Nína Ólafsdóttir er tvímælalaust nýgræðingur ársins þegar kemur að skáldverkum, bók hennar, Þú sem ert á jörðu hefur setið á listum frá því hún kom út og fengið góðar móttökur hjá bæði gagnrýnendum og lesendum,“ segir Bryndís og rýnir í listana með sínum þaulæfðu augum.

Aðg sögn Bryndísar er skáldverkalistinn brotinn upp með sérstökum lista fyrir þýdd skáldverk og glæpasögur. Þar er Ósmann eftir Joachim B. Schmidt í þýðingu Bjarna Jónssonar í fyrsta sæti. 

„Saga hans byggir á ævi Jóns Magnússonar Ósmann, ferjumanns í Skagafirði. Jón var tröll að burðum og annálað skáld en öðru fremur mannvinur með meyrt hjarta. Það undrar því ekki að þessi bók rati undir nokkur tré í ár.“

Útkall með sinn trausta aðdáendahóp

„Í þessari viku höfum við tekið ævisögurnar út úr fræðibókalistanum og gefið þeim sinn eigin lista,“ segir Bryndís. 

Líkt og síðustu áratugi er útkallsbók ársins, Útkall : Ég er á lífi, í fyrsta sæti fræðibókalistans og Jeppar í lífi þjóðar þar næst á eftir. 

Sú ævisaga sem mestrar velgengni nýtur og situr í efsta sæti ævisagnalistans er Mamma og ég : Myndir og minningar eftir Kolbein Þorsteinsson, son Ástu Sigurðardóttur og Þorsteins frá Hamri.

Og svo er það Reynir Finndal Grétarsson leikur tveimur skjöldum í þessu jólabókaflóði því auk þess að senda frá sér glæpasöguna Líf þá er hann einnig með sjálfsævisöguna Fjórar árstíðir sem situr í öðru sæti ævisagnalistans.

Vandaðar og áhugaverðar barnabækur

Við skiptum líka um kúrs við gerð barnabókalistanna og sýnum nú mest seldu ungmennabækurnar. Það er rétt að úrval nýrra bóka fyrir þennan aldurshóp þyrfti að vera meira en bækurnar sem raða sér á listann eru bæði vandaðar og áhugaverðar. Sólgos Arndísar Þórarinsdóttur situr í fyrsta sæti listans en líkt og Skólastjóri Ævars Þórs hlaut hún á dögunum tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Silfurgengi Brynhildar Þórarinsdóttur er svo í öðru sæti og ný þýðing Solveigar Sifjar Hreiðarsdóttur með ljóðaþýðingum Braga Valdimars Skúlasonar á Hobbitanum er í þriðja sæti.

Skólastjórinn situr vitanlega í fyrsta sæti íslenska barnabókalistans og bækur Birgittu Haukdal um Láru og Atla þar næst á eftir. Það er svo engin önnur en Lína langsokkur sem situr á toppi þýddra barnabóka með einn sumarlegasta titil jólabókaflóðsins, Lína fer í lautarferð.

Bryndís Loftsdóttir framkvæmdastjóri Félags íslenskra bókaútgefenda er sérfræðingur Vísis í jólabókaflóðinu.vísir/vilhelm

„Ég minni svo að lokum á að hér er aðeins tiplað á örfáum tindum jólabókaflóðsins. Við hvetjum bókaunnendur til að njóta úrvalsins og umfram allt halda í heiðri þeim góða sið að gefa bækur til jólagjafa,“ segir Bryndís hin bókelska.

Nú fer í hönd sú vika þar sem bóksala er langmest á árinu. Reyndar einstök á heimsvísu. Mjótt er á munum á toppnum og verður spennandi að sjá hvernig þetta fer að lokum en síðasti listinn birtist á Þorláksmessu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.