Erlent

Föngum sleppt og við­skipta­þvingunum af­létt

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Alexander Lúkasjenkó, einræðisherra i Hvíta-Rússlandi (t.h.), og John Coale, sérstakur erindreki Bandaríkjanna, á fundi í Minsk í gær.
Alexander Lúkasjenkó, einræðisherra i Hvíta-Rússlandi (t.h.), og John Coale, sérstakur erindreki Bandaríkjanna, á fundi í Minsk í gær. AP/Forsetaembætti Hvíta-Rússlands

Stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi hafa sleppt 123 föngum úr haldi, þar á meðal baráttukonunni Mariu Kolesnikova. Ákvörðun um frelsun fanganna var tekin eftir að Bandaríkjastjórn tilkynnti að viðskiptaþvingunum á landið yrði aflétt.

Fangarnir sem um ræðir voru allir áberandi í mótmælum gegn Alexander Lúkasjenkó sem brutust út í kring um forsetakosningarnar 2020. Þar á meðal er Nóbelsverðlaunahafinn Ales Bjaljatskí og áðurnefnd Kolesnikova, sem hefur verið í fangelsi í fimm ár og meirihluta þess tíma í einangrun. 

John Coale, sérstakur erindreki Donalds Trumps í Hvíta-Rússlandi átti fund með stjórnvöldum í Minsk þar sem ákveðið var að lyfta þvingunartollum á potash. Efnið er notað við gerð áburðar, sem er ein helsta útflutningsvara landsins. 

„Eftir því sem samskipti ríkjanna batna munum við lyfta fleiri viðskiptaþvingunum,“ sagði Coale í tilkynningu. Lúkasjenkó hefur verið mikill stuðningsmaður og aðdáandi Trumps. 

Föngunum verður sleppt lausum í dag og er þeirra vænst í Vilníus, höfuðborg Litháen síðar í dag. Hópur fólks hefur safnast saman fyrir utan bandaríska sendiráðið í borginni, þar sem fanganna er beðið. 

Aflétting viðskiptaþvingananna er stórt skref fyrir Lúkasjenkó og ríkisstjórn hans. Hvorki Evrópusambandið né Bandaríkin viðurkenndu kosningasigur hans árið 2020, en allt bendir til að kosningasvindl hafi verið umfangsmikið. Landið hefur verið einangrað síðan allt þangað til nú.


Tengdar fréttir

Sækist eftir sjöunda kjörtímabilinu

Forsetakosningar fara fram í Belarús í dag. Allt bendir til þess að Alexander Lúkasjenkó, sitjandi forseti, nái endurkjöri en hann hefur gegnt embættinu frá 1994. 

Óviss hvort eiginmaðurinn sé á lífi en ætlar ekki að gefast upp

Svetlana Tsíkanovskaja, leiðtogi stjórnarandstöðu Belarús, hefur ekki heyrt frá eiginmanni sínum sem hefur verið í fangelsi í heimalandinu í sex hundruð daga og veit ekki hvort hann er yfir höfuð enn á lífi. Hún hvetur Íslendinga til að halda áfram að styðja við baráttuna fyrir lýðræði í Belarús og til þess að nýta kosningaréttinn sinn sem ekki megi taka sem sjálfsögðum hlut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×