Innlent

Rann­sókn lokið þrjá­tíu árum eftir snjó­flóðið

Árni Sæberg skrifar
Frá minningarreit um þá sem létust í snjóflóðunum á Súðavík árið 1995.
Frá minningarreit um þá sem létust í snjóflóðunum á Súðavík árið 1995. Vísir/Vilhelm

Rannsóknarnefnd Alþingis vegna snjóflóðsins í Súðavík 16. janúar 1995 hefur lokið rannsókn sinni. Skýrsla nefndarinnar verður afhent forseta Alþingis á mánudag og kynnt sama dag.

Í tilkynningu á vef rannsóknarnefnda Alþingis segir að nefndin hafi verið skipuð á grundvelli ályktunar Alþingis 30. apríl 2024 um rannsókn á slysinu. Nefndinni var afhent skipunarbréf þann 26. nóvember í fyrra og henni gefið eitt ár til að skila skýrslu.

Nefndina skipa þau Finnur Þór Vilhjálmsson héraðsdómari, sem er jafnframt formaður nefndarinnar, Dóra Hjálmarsdóttir rafmagnsverkfræðingur, og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Átti að varpa ljósi á ákvarðanir stjórnvalda

Samkvæmt þingsályktun frá því í apríl í fyrra var ákveðið að skipa nefndina til þess að rannsaka málsatvik í tengslum við flóðið, sem féll 16. janúar 1995. Fjórtán létust í flóðinu og tíu slösuðust.

Nefndinni var ætlað að draga saman og útbúa til birtingar upplýsingar um málsatvik með það að markmiðið að varpa ljósi á ákvarðanir og verklag stjórnvalda í tengslum við flóðið. Þar átti að gera grein fyrir:

  • Hvernig staðið var að ákvörðunum um snjóflóðavarnir, hvernig skipulagi byggðar var háttað með tilliti til snjóflóðahættu, gerð hættumats og hvernig staðið var að upplýsingagjöf um snjóflóðahættu til íbúa Súðavíkur,
  • Fyrirkomulagi og framkvæmd almannavarnaaðgerða í aðdraganda snjóflóðsins, í kjölfar þess og þar til hættuástandi var aflétt,
  • Eftirfylgni stjórnvalda í kjölfar snjóflóðsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×