Menning

Að gluða tómat­sósu yfir sushi-ið

Jakob Bjarnar skrifar
Haukur Már flutti til Íslands frá Berlín á Covid-tímum. Hann er afar ánægður með þær móttökur sem tvær síðustu bækur hans hafa fengið. Beinn og breiður vegur? Aðeins vitleysingur myndi malda í móinn þegar hann heyrir slíka lýsingu.
Haukur Már flutti til Íslands frá Berlín á Covid-tímum. Hann er afar ánægður með þær móttökur sem tvær síðustu bækur hans hafa fengið. Beinn og breiður vegur? Aðeins vitleysingur myndi malda í móinn þegar hann heyrir slíka lýsingu. vísir/vilhelm

Staðreyndirnar eftir Hauk Má Helgason eru meðal þeirra verka sem tilnefnd eru til hinna Íslensku bókmenntaverðlauna, og maklega svo, þetta er afar athyglisverð og vel heppnuð saga.

Þar er fjallað um gervigreindina sem hefur átt sviðið undanfarið ár eða svo. Menn vita ekki almennilega hvað hún er eða hvert hún er að fara?

„Þórarinn Leifsson hafði orð á því á dögunum að hvað sem maður gerði um þessar mundir gæti maður notið ljóma þess að vera síðastur til að gera það – hvort sem er að skrifa bók, teikna mynd, hvað sem er, á næstunni sjái vélar um það allt saman. Það er forvitnilegur tímapunktur, í öllu falli,“ segir Haukur Már sem er með fyrstu mönnum til að fjalla um gervigreind í skáldsögu. Og ef bölsýn spá Þórarins gengur eftir, sá síðasti. Hér er því nokkuð undir.

Guðmundur Steingrímsson skýtur upp kollinum

Staðreyndirnar er skáldsaga en þú notar raunverulegt fólk einnig sem persónur í bókina. Þá stendur vitaskuld útaf spurningin: Að hve miklu leyti sagan er skáldskapur og að hve miklu leyti staðreyndir?

„Raunverulegt fólk, já. Eða heimildir um raunverulegt fólk, sögulegar heimildir að mestu. Ég held að það sé tiltölulega skýrt hvað er skáldað og hvað ekki, í merkingunni hvað er tilbúningur og hvað ekki. Samtímasagan af honum Steini er skálduð en sögulegu atburðirnir sem koma þarna til skoðunar hvíla á heimildum. En svo er skáldskapur í því líka í hinum skilningnum, að hvaðan sem hráefnið kemur þarf að sníða það til, gefa því eitthvert form.“

Haukur Már hugsar sig um.

„Raða saman. „Composition“ er ágætt orð finnst mér, samsetning. Það þarf að setja þetta saman einhvern veginn.“

Fórstu djúpt í heimildavinnsluna?

„Já og nei. Nokkrar heimsóknir í Þjóðskjalasafn, nokkrar bækur, jú, ég þurfti að átta mig á efninu. En í samanburði við bókina sem ég lét frá mér fyrir þremur árum, Tugthúsið, þá finnst mér heimildavinnan við þessa varla hafa verið neitt neitt. Enda annars konar verk. 

Haukur Már lagði á sig talsverða heimildavinnu við ritun bókarinnar, þó ekki eins mikla og við gerð Tugthússins, þá var hann nánast sem andsetinn.vísir/vilhelm

Við heimildaöflun fyrir Tugthúsið kom í ljós að saga þess hafði hreint ekki verið sögð, frumheimildirnar héldu áfram að afhjúpa efni sem hafði hvergi birst áður. Ég varð andsetinn af þeim í nokkur misseri. Í tilfelli þessarar sögu hefur aftur á móti allt komið fram, með einum hætti eða öðrum, engin óbirt heimild kom upp úr kafinu.“

En persónurnar sem um er fjallað tilheyra ekki bara liðinni tíð. Eða svo vitnað sé í bókina:

„Styttan var í eigu fjölskyldunnar. Fjölskyldunnar. Gummi! Sonarsonur Hermanns, ég kannast við hann. Var hann ekki kominn í ný verkefni, með einhverja gráðu? Loftslagsmálin, var hann kominn í loftslagsmálin?“ (Bls.168.)

Þarna er til að mynda sjálfur Guðmundur Steingrímsson doktorsnemi og fyrrverandi blaðamaður ljóslifandi mættur?

„Rétt,“ segir Haukur.

Styttan af nasistanum er til

Þetta sem sagt skarast. Ég er að velta fyrir mér bókmenntafræðilega því fyrirbæri að blanda saman raunverulegum og tilbúnum persónum og atburðum. Þetta má heita póstmódernískt einkenni?

„Einmitt, já, þegar þú bendir á það, hann og styttan standa þarna sem svolítil brú milli frásagnanna tveggja. Þessi ólánsstytta er víst sannarlega til. Ég veit ekki með póstmódernisma … er það nothæft greiningarhugtak lengur? Urðum við ekki svo gegnsósa í því, komum við ekki út hinu megin við það einhvern veginn? Kannski er þetta rétt hjá þér, ég er bara löngu hættur að kunna að nota þetta orð sjálfur.“

Styttan af nasistanum á hestbaki leikur nokkurt hlutverk í bókinni en mynd af henni getur að líta á bókarkápu.

Ók, við skulum ekkert láta þetta orð flækjast fyrir okkur, en það er sem sagt þetta fyrirbæri að má út hvað er tilbúningur og hvað ekki eða ... Já, er styttan sem sagt til?

„Styttan er til – skilst mér. Þær voru framleiddar í postulínsgerðinni Allach sem var starfrækt frá 1935 til stríðsloka, meðal annars til að smíða svona gjafavöru fyrir æðstu ráðamenn Þriðja ríkisins. Og þessi rataði þaðan til þáverandi forsætisráðherra Íslands.“

Hermann beitti glímutökum við að komna veg fyrir rannsókn

Athyglisvert. Einn þráður sögunnar er slagtog íslenskra ráðamanna og nasista í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar. Finnst þér sem þar séu óuppgerð mál?

„Ég veit ekki alveg hvað uppgjör er eða væri í því samhengi. Það sem bókin fæst við er frekar hvað fær að vera til. Hluti sögunnar, eins þegar það er kannski eitthvað sem er engin leið að gera upp, beinlínis.“

Nefnilega. En nasisminn skýtur reglulega upp kollinum. Sýnist þér sem þar hafi menn viljað sópa einhverju undir teppi? Að „mjúk stýring“ hafi ráðið för?

„Nú er hætt við að ég hljómi sjálfur eins og stjórnmálamaður sem vill forðast flóknar spurningar, en að einhverju leyti finnst mér minn skilningur eða hugmyndir um málið aukaatriði í samhengi verksins. Þó að ég setji það saman þá verður úr eitthvað sem ég held að sé stundum, þegar vel tekst til, aðeins klárara en ég er sjálfur. Ef ég reyni að bæta við einhverju sem mér finnst, beinlínis um efni bókarinnar, þá líður mér eins og ég sé að klína tómatsósu á sushi-ið.“

Haukur Már vill ekki beinlínis taka afstöðu til þeirrar spurningar hvort íslensk stjórnvöld voru í aðdraganda stríðs undir áhrifum frá nasistum en segir þó Hermann Jónasson forsætisráðherra hafa beitt glímubrögðum við að þagga niður óþægilega umræðu.vísir/vilhelm

Haukur Már, kurteis maðurinn, er þarna kominn hættulega nálægt því að stinga haltu-kjafti-karamellu upp í blaðamanninn. Sem er orðinn of góður með sig og farinn að ræða inntak verksins. Haukur vill ekki frekar en aðrir höfundar leggja neinar línur þar. Já, ehhh, ég ætlaði að spyrja þig hvort sanngjarnt væri að leggja gildismat dagsins í dag við það sem var ... en þú ert eiginlega búinn að rústa þeirri spurningu.

(Haukur Már sér aumur á blaðamanninum.)

„Jæja. Ég held að stundum ýkjum við þessa fjarlægð fyrir okkur, og muninn á gildismati. Það var fullt af fólki sem gerði sér grein fyrir því fyrir valdatöku nasista að þar væru glæpamenn á ferð. Flest voru það vinstrimenn, uppnefndir eða réttnefndir kommúnistar, hvort sem er Þórbergur Þórðarson hér heima, Steinn Steinarr, Einar Olgeirsson, Charlie Chaplin, Bertrand Russell eða alveg óþekkt fólk. Strax í desember 1945 veigruðu hins vegar íslenskir þingmenn sér ekki við að spyrja hvort ekki væri nóg komið af þessu uppgjöri við fortíðina, stríði sem væri löngu lokið, það hefðu verið aðrir tímar mátti skilja á þeim, og tímabært að láta fólk bara í friði. Bæði hagsmunir og hugsjónir ráða miklu, held ég, um hvaða augum fólk lítur tímann að þessu leyti.

Nákvæmlega.

„Mjúk stýring, hörð stýring, Hermann Jónasson beitti nú alveg glímutökum þarna í ræðustól Alþingis til að koma í veg fyrir rannsókn á málunum, sýndist mér.“

Kannski seint í rassinn gripið en svo lesendur átti sig á því hvað um er rætt er líklega rétt að snúa talinu að vitvélinni Landnámu og söguþræðinum. Steinn, sem er aðalpersónan, ræðst til þess að vera deildarstjóri í nýrri stofnun sem heitir Upplýsingastofa, sem skrifstofustjóri staðreyndasviðs. Og hefur þar umsjá með gerð vitvélar sem á að hafa allar staðreyndir á hreinu?

„Vélinni er ætlað að hafa þær staðreyndir á hreinu sem hægt er, skapa kjölfestu í umræðunni.“

Við erum í framtíðinni og hún er flókin

Og, þú vilt gjalda varhug við slíkum vélum? Blaðamaður bítur sig í tunguna, því þetta er sannast sagna of heimskuleg spurning til að hún sé boðleg. En Haukur Már, eins viðkunnanlegur maður og hann er, huggar blaðamann með því að benda á að engin spurning sé heimskuleg.

„En þarna kemur aftur tómatsósan, eða hættan á að ég setji mig í stellingar tómatsósuflösku. Ég held að ég, persónulega, hafi eiginlega bara sömu, mótsagnakenndu skoðanir á þessum vélum og flest fólk. 

Haukur Már er bæði heillaður af vitvélunum, skelkaður við þær og strax kominn með leið á þeim.vísir/vilhelm

Ég er bæði heillaður af þeim, skelkaður við þær og strax kominn með leið á þeim. En þær eru víst áreiðanlega komnar til að vera, við erum rétt að byrja að fást við afleiðingarnar, góðar og slæmar. Við erum í framtíðinni og hún er flókin.“

Vitvél eða gervigreind er spennandi persóna í skáldsögu sem býr við ýmsar takmarkanir sem eru vitaskuld viðfangsefni rithöfunda. Við höfum búið við ástand undanfarin tíu til tuttugu ár sem einkennist ef til vill af ofurtrú á það að til sé eitthvað sem er að taka öllu bókstaflega. Á því grundvallast meðal annars sú trú að hægt sé að setja fram vitvélar. En horft er fram hjá því að til er eitthvað sem heitir myndmál, líkingar - valtað er yfir blæbrigði merkingarinnar.

„Já, mér finnst þetta mjög forvitnileg staða sem við erum í með allan texta. Reyndar áður en þessi spjalltæki á við ChatGPT komu til sögunnar, þá var Twitter, nú X, þegar búið að taka í notkun einhverja algóriþma til að greina stemningu í færslum, hvort þær væru kaldhæðnar eða ekki til dæmis. Og auðvitað er hluti þessa heillandi hryllings við nýju vélarnar sá að þær virðast bera kennsl á ýmsa slíka núansa, eru mannlegri en flesta óraði fyrir að því leyti. En samt vélar.“

Fram undan gríðarleg átök um valdið yfir þessum vélum

Haukur nefnir að birst hafi frétt um daginn í The Guardian þar sem fjallað er um nýja rannsókn á gervigreind.

„Sem leiddi í ljós hvernig mætti beita ljóðum til að komast fram hjá þeim girðingum sem er ætlað að stýra hvað spjallmennin mega og mega ekki segja – vegna þess að þau eru alltaf að vega og meta líklegasta næsta orð, ólíkindin í ljóðum geta víst sett þau alveg úr skorðum. Enn sem komið er. Væntanlega verður litið á það sem galla og bætt úr honum á næstunni.“

Haukur Már þagnar. Og heldur svo áfram.

„En þú sérð, ég nota orðið „forvitnilegt“ hérna aftur og aftur vegna þess að ég veit ekki frekar en aðrir nákvæmlega hvaða einkunn er best að gefa þessu ástandi. Umhugsunarvert? Við lifum við eitthvert þverhnípi. Áhugavert. Forvitnilegt.“

Haukur Már segist alveg jafn ringlaður á gervigreindinni og næsti maður.vísir/vilhelm

Maður þarf víst að geta tekið gleraugun af nefinu til að sjá þau. Og: Hver gætir varðanna?

„Hver gætir varðanna, já. Einmitt. Bernie Sanders birti á dögunum ákall um að stjórnvöld láti sig málið varða frekar en skilja það eftir í höndum ólígarkanna, hvernig vélarnar þróast. Fram undan eru áreiðanlega gríðarleg átök um valdið yfir þessum vélum.

Heimspekingar reyna að einfalda hlutina

Haukur Már segir það að skrifa skáldsögu feli í sér ákveðna forréttindastöðu að því leyti að þá tekur maður ekki að sér að leysa nokkurn vanda heldur bara skima um hann, skoða hann.

Og bæta við hann?

„Jafnvel. Já. Flækja málin, að minnsta kosti. Á góðri íslensku er ég, eins og flestir held ég, alveg bit yfir þessum samtíma okkar.“

En það hlýtur að vera draumastaða heimspekingsins? (Kerksni er innbyggð í þessa spurningu en Haukur Már er menntaður heimspekingur.)

„Um leið og hann hættir að fást við heimspeki, að minnsta kosti. Heimspekin vill yfirleitt einfalda hlutina, eða að minnsta kosti greina þá þannig að þeir verði viðráðanlegri. Það getur verið gaman að hafa eitthvað af þeim tækjum í höndunum án þess að ætla sér einmitt það hlutverk.“

Lítur út fyrir að Haukur verði að finna sér annað starf 2026

Nákvæmlega. Þú titlar þig nú rithöfund, ertu búinn að finna fjölina þína?

„Þegar ég kemst upp með það, já. Hvar maður finnur sína fjöl er að svo miklu leyti í annarra höndum. Ég var áreiðanlega rithöfundur á meðan ég skrifaði þessa bók og gafst næði til þess. Og líklega er ég rithöfundur þetta haust, á meðan bókin kemur út og ratar til lesenda. Árið 2026 lítur út fyrir að ég þurfi að finna mér eitthvert annað starf, en hver veit nema ég verði aftur rithöfundur 2027.“

En þetta hefur verið beinn og breiður vegur, þú hefur hlotið lofsamlega dóma og nú ertu tilnefndur til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þetta getur varla betra verið?

Haukur Már segir að nú líti út fyrir að hann verði að finna sér annan starfa 2026 en hann bindur vonir við að geta titlað sig rithöfund 2027.vísir/vilhelm

Beinn og breiður vegur hljómar svo vel, bara vitleysingur myndi malda eitthvað í móinn þegar hann heyrir slíka leiðarlýsingu. En þessar tvær síðustu bækur hafa fengið alveg afskaplega góðar viðtökur já, það er mikil gæfa.“

Aðalpersónan Steinn, segir söguna. Þetta er fyrstu persónu frásögn. Hann er í raun fórnarlamb aðstæðna, og í anda hinnar ævisögulegu bókmenntaaðferðar spyr ég að hve miklu leyti endurspeglar hann höfundinn?

„Ég lána honum eitt og annað frá sjálfum mér, en ætli það sé ekki upp úr tvítugu sem leiðir okkar skildu.“

Opinber starfsmaður í þroti fær sér paruk

Haukur setur spurningarmerki við það hversu mikið fórnarlamb aðstæðna Steinn sé þegar að er gáð.

„Hann tekur nú sínar ákvarðanir, hann Steinn. Hann tekur þá ákvörðun þarna sem ungur maður, í forsögunni sem hann rekur, að kyngja einu og öðru, fallast á forsendur annarra til að kaupa sér aðgang að ákveðnum heimi. Fórnarlamb aðstæðna, já, en skapar þær aðstæður þó ekki að litlu leyti sjálfur. Aðstæðurnar og hann eru einn ormur sem bítur í skottið á sjálfum sér.“

Persónusköpunin er veigamikill þáttur í skáldskap og mig langaði að spyrja þig út í eitt sem lýtur að því, smáatriði, lítið skrítið atriði sem þó skiptir á einhvern dularfullan hátt sköpum, sem er þegar Steinn kaupir sér parúk. Hver er eiginlega hugmyndin á bak við það?

„Haha! Takk, gaman að þér þótti það heppnast. Þetta er mynd og merking hennar kannski ekki niðurnegld fyrir mér sjálfum. Mér þótti fyndið að máta Stein, opinberan starfsmann í svolitlu andlegu þroti hér á 21. öld, við þessa tilteknu ásýnd embætta og opinbers valds á 18. öld. Hvernig einkennisklæðin þá verða billegur grímubúningur nú. Einhver afhjúpun, kannski. En ég tæki túlkun annarra á þessari mynd að minnsta kosti jafn alvarlega og mína eigin.“

Ánetjaðist Berlín

Sko, þú varst búsettur lengi í Þýskalandi, hvað varstu að bauka þar? Og ertu alkominn heim?

„Ég villtist fyrst til Berlínar árið 2001, sem skiptinemi. Vissi varla neitt um staðinn, vissi ekki margt yfirleitt, talaði ekki þýsku … en ánetjaðist borginni. Ég er víst ekki einn um það. Svo væflaðist ég til og frá henni þar til við Dísa, konan mín, fluttum þangað og bjuggum þar mestallan síðasta áratug. 

Á meðan múrinn stóð nutu Vestur-Þjóðverjar ríkisstyrkja fyrir að halda Vestur-Berlín í byggð, borg sem framleiddi ekkert, hafði ekkert hlutverk í hagkerfinu.vísir/vilhelm

Einn stærsti kostur hennar er kannski atvinnuleysið eða atvinnuleysiskúltúrinn. Á meðan múrinn stóð nutu Vestur-Þjóðverjar ríkisstyrkja fyrir að halda Vestur-Berlín í byggð, borg sem framleiddi ekkert, hafði ekkert hlutverk í hagkerfinu. Svo fólk fann sér annað við að vera.“

Haukur Már segir þetta vitaskuld hafa verið að breytast.

„Hjól atvinnulífsins leggja sig fram um að mylja þá menningu undir sig, en það gerist hægt og þann tíma sem við bjuggum í borginni var hún enn mjög álitlegur staður ef maður vildi fá svigrúm til að vita ekki alveg hvað maður væri að gera. Í mínu tilfelli að lesa, skrifa, komast í önnur samtöl en ella, og svo afla tekna auðvitað, einhvern veginn.“

Og nú er það Ísland?

„Við komum hingað í ársbyrjun 2020, þegar við gerðum okkur grein fyrir að við þyrftum að velja hvar við yrðum á meðan samgöngur heimsins lægju niðri í lengri eða skemmri tíma, höfðum verk að vinna hér. Og höfum það enn. Sjáum hvað setur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.