Innlent

Króuðu stolinn bíl af í Kömbunum eftir eftir­för þvert yfir Hellis­heiði

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Eftirförinni lauk ekki fyrr en í Kömbunum.
Eftirförinni lauk ekki fyrr en í Kömbunum. Vísir/Vilhelm

Lögregla veitti ökumanni eftirför frá höfuðborgarsvæðinu og þvert yfir Hellisheiðina. Ökumaðurinn var á stolnum bíl og sinnti ekki merkjum lögreglu um að nema staðar fyrr en liðsauki barst í Kömbunum. Maðurinn sá sér loks enga leið færa en að gefa sig upp og var handtekinn.

Garðar Már Garðarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir lögreglubíl frá höfuðborgarsvæðinu hafa veitt stolna bílnum eftirför eftir að ábending barst. Lögregla hafi þá gefið ökumanni stolna bílsins merki um að nema staðar sem hann hafi ekki sinnt.

Upp hófst eftirför yfir endilanga Hellisheiðina. Óskað var eftir liðsauka frá Lögreglunni á Suðurlandi sem kom úr hinni áttinni upp heiðina og loks náði lögreglan að króa ökumanninn af í Kömbunum.

Garðar segir aðgerðina hafa gengið vel og að ekki hafi þurft að keyra utan í bílinn eða framkvæma aðrar hættulegar tilraunir til að stöðva ferð bílsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×