Fótbolti

Allt í steik hjá Real og tveir sáu rautt

Sindri Sverrisson skrifar
Vinicius Junior og félagar í Real Madrid ollu stuðningsmönnum miklum vonbrigðum í kvöld.
Vinicius Junior og félagar í Real Madrid ollu stuðningsmönnum miklum vonbrigðum í kvöld. Getty/Denis Doyle

Real Madrid varð að sætta sig við 2-0 tap á heimavelli gegn Celta Vigo í kvöld og er fjórum stigum á eftir Barcelona á toppi spænsku 1. deildarinnar í fótbolta.

Madridingar hafa nú aðeins fengið sex stig úr síðustu fimm leikjum sínum í deildinni.

Þeir enduðu tveimur mönnum færri í kvöld og höfðu auk þess misst Eder Militao meiddan af velli um miðjan fyrri hálfleik.

Svíinn Williot Swedberg kom inn á hjá Celta í upphafi seinni hálfleiks og kom liðinu yfir skömmu síðar. Hann skoraði einnig seinna mark leiksins, í uppbótartíma. Í millitíðinni fengu tveir leikmenn Real rauða spjaldið. Fyrst var það Fran García á 63. mínútu og svo Álvaro Carreras í uppbótartíma.

Kylian Mbappé, Vinicius Junior og Jude Bellingham voru allir í liði Real en engum þeirra tókst að finna leiðina að markinu í kvöld og í leikslok bauluðu áhorfendur á Bernabeu-leikvanginum.

Þetta var fyrsti útisigur Celta gegn Real síðan árið 2006 og er liðið nú í 10. sæti deildarinnar með 19 stig eftir 15 leiki. Real er með 36 stig í 2. sæti en eins og fyrr segir nú fjórum stigum á eftir Barcelona og þungt yfir nú þegar aðeins þrír dagar eru í stórleik Real og Manchester City í Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×