Fótbolti

Glódís og Bayern að stinga af eftir stór­sigur

Sindri Sverrisson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir alsæl eftir eitt marka Bayern gegn Frankfurt í dag.
Glódís Perla Viggósdóttir alsæl eftir eitt marka Bayern gegn Frankfurt í dag. Getty/Simon Hofmann

Ekkert virðist ætla að trufla titilvörn Bayern München, í efstu deild kvenna í fótbolta í Þýskalandi. Í dag vann liðið 5-0 stórsigur á liðinu í 5. sæti, Frankfurt.

Glódís Perla Viggósdóttir var á sínum stað í liði Bayern, með fyrirliðabandið, og lék fram á 76. mínútu þegar henni var skipt af velli. Staðan var þá þegar orðin 5-0.

Hin serbneska Jovana Damnjanovic skoraði tvö marka Bayern en þær Klara Bühl, Pernille Harder og Alara Sehitler eitt mark hver.

Glódís fékk að líta gula spjaldið á 60. mínútu, eftir mótmæli við dómara.

Bayern hefur nú unnið ellefu af tólf leikjum sínum, og gert eitt jafntefli, og er með 34 stig á toppi deildarinnar. Frankfurt er með 19 stig í 5. sætinu. 

Bayern er sex stigum á undan næsta liði sem er Wolfsburg og þess má geta að Bayern er með +41 í markatölu, eða 19 mörkum betri markatölu en Wolfsburg nú þegar og yfirburðirnir því búnir að vera algjörir hjá meisturunum það sem af er leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×