Handbolti

„Hún lamdi að­eins á mér“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Liðsfélagarnir Elín Rósa og Nieke Kuhne tókust hart á í gærkvöldi.
Liðsfélagarnir Elín Rósa og Nieke Kuhne tókust hart á í gærkvöldi. Marijan Murat/picture alliance via Getty Images

Elín Rósa Magnúsdóttir var lurkum lamin af liðsfélaga sínum í opnunarleik Íslands og Þýskalands á HM í handbolta.

Elín Rósa er leikmaður Blomberg/Lippe í Þýskalandi og spilaði því gegn tveimur liðsfélögum sínum, hornakonunni Alexiu Hauf og bakverðinum Nieke Kuhne.

„Það var mjög gaman og svolítið öðruvísi að þekkja einhverjar í hinu landsliðinu. Þær eru mjög öflugar en þetta var bara mjög skemmtilegt. 

Hún [Nieke Kuhne] er mjög öflug og er þarna í hjarta varnarinnar þannig að já, hún lamdi aðeins á mér, en maður komst nokkrum sinnum í gegnum hana líka“ sagði Elín á hóteli landsliðsins í dag, eftir 32-25 tap gegn Þýskalandi í gærkvöldi.

Eins og aðrir leikmenn íslenska liðsins var Elín ánægð með frammistöðu liðsins í leiknum.

„Ég er bara stolt af liðinu, við börðumst allan tímann og það var okkar helsta markmið að gefa þeim alvöru leik, sem við náðum að gera að hluta til, þannig að ég var bara ánægð með þetta.“

Elín var stoðsendingahæst hjá íslenska liðinu og nafna hennar var markahæst, þannig að samstarfið gekk nokkuð vel hjá þeim í sókninni.

„Þetta gekk bara ágætlega, þegar það var flot á boltanum þá náðum við Elín [Klara Þorkelsdóttir] að vera eins og skopparakringlur fyrir utan. Þegar við náðum að koma boltanum frá okkar og fengum ekki þessi hraðaupphlaup í bakið þá gekk þetta ágætlega.“

Nú undirbýr liðið sig fyrir næsta leik gegn Serbíu, og þó frammistaðan í gær hafi verið góð, vilja stelpurnar okkar gera enn betur.

„Við viljum vera örlítið þéttari í vörninni og fá meiri frumkvæði sóknarlega, skila boltanum líka betur frá okkur. Stefnan er auðvitað sett á sigur“ sagði Elín Rósa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×