Skoðun

Góð sam­viska er gulli betri

Árni Sigurðsson skrifar

Má ég segja þér sögu? Andstyggilega þungbæra sögu sem kostaði mig áratug, og er ennþá að trufla líf mitt en bjargaði mér vegna hreinnar samvisku?

Heilsuhrun:

Árið 2013 hrundi heilsan mín. Ég endaði á spítala, algerlega uppgefinn, þungur og veikur, og þurfti að byrja upp á nýtt. Á þessum tíma leigði ég íbúð af manni á mínum aldri. Hann þóttist vinur á yfirborðinu en hafði óstöðugt einkalíf, sterka þörf fyrir aðdáun og átti sér kærustu sem bar með sér ójafnvægi og erfiða sögu. Hún átti eldri börn og hafði áður notað ásakanir til að hefna sín þegar sambönd enduðu illa.

Á meðan ég lá enn inni á spítala fór samband þeirra í rúst. Nokkrum vikum síðar, þegar ég var kominn á heilsulind (NLFI Hveragerdi) til að ná mér, mætti hann allt í einu og sagði mér að hann og vinur hans hefðu verið handteknir, sakaðir um að hafa misnotað yngsta son hennar. Þeir voru látnir lausir því engin gögn fundust. Ég sá strax mynstrið: hún hafði áður beitt sama aðferð. Ég sagði honum að fara mjög varlega.

Lögreglan hefur samband:

Nokkrum vikum síðar hringdi lögreglan í mig. Hún hafði nú bætt mér inn í söguna. Henni hafði dottið í hug að við þrír hefðum misnotað barnið og tekið myndir. Ég fór í skýrslutöku, rólegur og hreinskilinn. Lögreglan trúði mér og sá fljótt að ekkert hélt vatni. En kerfið heldur áfram hvort sem þú ert saklaus eða sekur. Þetta dróst og dróst. Ég sendi inn kæru um rangar sakargiftir en sönnunarbyrðin er svo há að þær falla flestar um sjálfa sig.

Hrein samviska er orkubú:

Eitt augnablik virtist málið sofna, svo kviknaði því aftur líf. Ég var aftur kallaður í yfirheyrslu. Í þetta skiptið tóku þeir tölvuna mína, símann og allt rafrænt sem ég átti — ekki vegna gruns, heldur vegna forms. Eftir að hafa farið í gegnum allt fannst auðvitað ekkert, því ekkert var til. Að lokum féllu allar ásakanir niður, endanlega og án fyrirvara. Ég var alltaf rólegur enda það dásamlega við að vera hafður fyrir rangri sök er hrein samviska.

Kusk á hvíflibbanum:

En þó ég hafi sloppið hreinn kostaði ferlið mig mörg ár. Ekki í réttarkerfinu, heldur innra með mér. Ég gat ekki sagt föður mínum neitt; hann hefði ekki getað skilið þetta og hefði brugðist illa. Ég gat ekki sagt öðrum, því jafnvel saklaus maður ber stundum skugga gruns þegar eitthvað svona kemur upp. Þannig að ég þagði. Ég var veikur, einmana og að reyna að endurreisa lífið.

Það sem hélt mér gangandi var eitt: ég vissi sannleikann. Hrein samviska var áttavitinn minn. Stormurinn gekk yfir, sannleikurinn stóð eftir. En áfallið, leyndin og einangrunin sem fylgdi þessu lifði með mér í mörg ár. Og gerir enn.

Endurfæðing sjálfsskoðunar:

Nú fyrst, í gegnum heiðarlega sjálfsskoðun get ég viðurkennt fyrir sjálfum mér hversu djúpt þetta skar. Ekki vegna sektar. Heldur vegna þess að ég bar þetta einn. Það var engum trúandi vegna efans sem möguleg sök skapaði.

Vegna þess deili ég því þessi kafli hefur kennt sem svo margt um þann mann sem ég er að reyna að verða .

Höfundur er fyrrum framkvæmdastjóri Stjórnunarfélagsins.




Skoðun

Sjá meira


×