Erlent

Telja sig með alla ræningjana í haldi

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Louvre í París. Safnið er gríðarlega vinsælt og hýsir fjölmarga merkilega og verðmæta muni.
Frá Louvre í París. Safnið er gríðarlega vinsælt og hýsir fjölmarga merkilega og verðmæta muni. AP/Thomas Padilla

Lögreglan í Frakklandi hefur handtekið fjóra til viðbótar vegna gruns um að viðkomandi hafi tekið þátt í eða komið að ráninu í Louvre-safninu í október. Lögregluþjónar telja sig nú hafa komið böndum yfir alla mennina fjóra sem tóku þátt í ráninu auk annarra fjögurra sem aðstoðuðu þá.

Fjórir ræningjar mættu fyrir utan safnið heimsfræga um klukkan 9:30 að morgni sunnudagsins 19. október, skömmu eftir að safnið opnaði, og notuðu stigabíl til að komast að tiltölulega óvörðum glugga á safninu.

Gluggann brutu þeir og hlupu inn með verkfæri sem þeir notuðu til að ógna óvopnuðum öryggisvörðum sem flúðu. Mennirnir notuðu verkfærin því næst til að opna sýningarbása og ræna munum.

Á innan við fjórum mínútum voru þeir komnir aftur út og flúðu á vespum sem biðu þeirra en þeir komust undan með gífurlega verðmæt krúnudjásn og skartgripi.

Fjórir höfðu verið handteknir vegna ránsins í lok síðasta mánaðar og er nú búið að handtaka fjóra til viðbótar. Tveir menn, 38 og 39 ára, voru handteknir í morgun og tvær konur, 31 og 40 ára. Öll eru þau sögð frá Parísarsvæðinu en áður voru þrír menn og ein kona í haldi.

Í frétt Le Parisien segir að annar mannanna sem handtekinn var í morgun sé talinn vera síðastur mannanna fjögurra sem tóku beinan þátt í ráninu.

Leit að krúnudjásnunum stendur enn yfir og er enn verið að reyna að bera kennsl á þann eða þá sem gætu hafa skipulagt ránið.


Tengdar fréttir

Lykilorð Louvre einfaldlega Louvre

Lykilorðið að öryggismyndavélakerfi Louvre-safnsins þegar brotist var inn í síðasta mánuði var einfaldlega nafn safnsins. Engin öryggismyndavél sneri heldur að glugganum sem þjófarnir brutu til að komast inn.

Kona ákærð fyrir ránið í Louvre

Ein kona hefur verið ákærð fyrir rán í Louvre-safninu í París. Konungsdjásnum Frakka var stolið fyrir um tveimur vikum.

Hafa játað aðild að ráninu í Louvre

Mennirnir tveir sem handteknir voru um helgina vegna ránsins í Lovure hafa játað, að hluta til, að hafa komið að ráninu. Tveir menn ganga enn lausir og krúnudjásnin og aðrir verðmætir munir sem þeir stálu af safninu hafa ekki fundist enn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×