Innlent

Þriðji fram­kvæmda­stjórinn frá valda­töku Guð­rúnar ráðinn

Árni Sæberg skrifar
Talsverðar breytingar hafa orðið í Valhöll undanfarin misseri. Þá stendur til að selja sjálfa Valhöll og flytja höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins annað.
Talsverðar breytingar hafa orðið í Valhöll undanfarin misseri. Þá stendur til að selja sjálfa Valhöll og flytja höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins annað. Vísir/Sigurjón

Björg Ásta Þórðardóttir hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins en hún tók við í apríl síðastliðnum. Tryggvi Másson verður nýr framkvæmdastjóri, sá þriðji frá því að Guðrún Hafsteinsdóttir varð formaður flokksins.

Þetta var niðurstaða fundar miðstjórnar flokksins í hádeginu, að því er heimildir Vísis herma. Morgunblaðið greindi fyrst frá.

Vísir hefur ekki náð í Björgu Ástu við vinnslu fréttarinnar en Morgunblaðið greinir frá því að hún stefni á framboð í sveitarstjórnarkosningunum í vor í Vogum. 

Hún tók við störfum í Valhöll þann 4. apríl síðastliðinn og í fréttatilkynningu þess efnis á sínum tíma sagði að hún væri lögfræðingur með víðtæka reynslu af lögfræðistörfum, meðal annars sem yfirlögfræðingur Samtaka iðnaðarins, lögfræðingur hjá Félagi atvinnurekenda og fulltrúi hjá Málflutningsstofu Reykjavíkur. Hún hefði einnig starfað hjá lögreglunni á Suðurnesjum og síðast sem aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, sem var þá Guðrún Hafsteinsdóttir.

Tryggvi Másson er nýr framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.

Hún tók við af Þórði Þórarinssyni sem hafði gengt stöðu framkvæmdastjóra í ellefu ár.

Tryggvi Másson var framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins á árunum 2022 til 2024 en hann kemur til flokksins frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Hann er varaþingmaður flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×