Innlent

Æ fleiri falla fyrir svikum úr enn fleiri áttum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Magni R. Sigurðsson forstöðumaður netöryggissveitarinnar CERT-IS.
Magni R. Sigurðsson forstöðumaður netöryggissveitarinnar CERT-IS. Vísir/Vilhelm

Tilfellum þar sem fólk fellur fyrir svikastarfsemi fer fjölgandi að sögn forstjóra netöryggissveitarinnar CERT-IS. Sveitinni hefur undanfarnar tvær vikur borist fjöldi tilkynninga um svokallaðar vefveiðar auk svika í gegnum símtöl þar sem óprúttnir aðilar beita fyrir sig íslenskum númerum.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varaði fyrir helgi við svokölluðum vefveiðum í nafni Skattsins, þar sem óprúttnir aðilar föluðust eftir reikningsupplýsingum í gegnum það sem virtist vera vefsíða stofnunarinnar. Þá hefur tilkynningum fjölgað um svokallað spoof-ing svindl, þar sem hringt er úr því sem virðist vera íslensk númer. 

Viðkomandi svo sannfærður um að setja sérstakt forrit í síma sinn sem gerir svikurum kleyft að hafa af þeim fjárhæðir. Magni R. Sigurðsson forstöðumaður netöryggissveitarinnar CERT-IS segir tilkynningum um svik hafa fjölgað síðustu tvær vikur.

„Það hefur aðeins auksit núna síðustu vikur en kemur svo sem alltaf í bylgjum og búið að vera í heilt ár þar sem þetta dettur í lægð í nokkrar vikur en kemur svo aftur upp og þá berst okkur aftur tilkynningar um slíkt.“

Svindlið sé oftar en ekki mjög raunverulegt og hafi raunar aldrei verið auðveldara að láta blekkjast sé fólk ekki á varðbergi.

„Þetta kemur náttúrulega úr mörgum áttum. Við erum að fá svikin núna í gegnum tölvupóstana, SMS- skilaboð og símtöl núna í gegnum þessi svikasímtöl og svo náttúrulega í samfélagsmiðlana, þannig jú svikararnir reyna að finna alltaf nýjar leiðir til að láta okkur falla fyrir.“

Oftar en ekki falli fólk ekki fyrir slíku svindli, en það sé hinsvegar að aukast í takti við það hve hratt slík svik hafa þróast og geti einstaklingar og fyrirtæki orðið af háum fjárhæðum.

„Við höldum tölfræði yfir tilkynningar til okkar, ekki tilkynningar yfir fjárhagslegt tjón en við höfum svo sem fengið þær upplýsingar frá seðlabankanum og það er klárlega aukning í því að fólk sé að falla fyrir svikum og að fjármunir séu að tapast á milli ára.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×