Handbolti

Íslendingaliðið heldur í við toppliðið eftir risasigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Benedikt Gunnar Óskarsson kom að 13 mörkum fyrir Kolstad.
Benedikt Gunnar Óskarsson kom að 13 mörkum fyrir Kolstad. kolstad

Íslendingalið Kolstad vann afar öruggan 17 marka sigur gegn botnliði Sandnes í norsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag.

Heimamenn í Kolstad voru með yfirhöndina frá upphafi til enda og leiddu með fimm mörkum þegar flautað var til hálfleiks.

Í síðari hálfleik var svo aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda. Heimamenn náðu fljótt tíu marka forskoti og unnu að lokum 17 marka sigur, 47-30.

Sigurjón Guðmundsson varði fjögur skot í marki Kolstad í leik dagsins og var með um 44 prósent hlutfallsvörslu. Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði fjögur mörk fyrir liðið og lagði upp önnur níu og Sigvaldi Björn Guðjónsson lagði upp tvö mörk fyrir liðið.

Kolstad situr í örðu sæti norsku deildarinnar með 18 stig eftir tíu leiki, einu stigi á eftir toppliði Elverum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×