Sport

„Ó­hræddir við að vinna þennan leik“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen er spenntur.
Andri Lucas Guðjohnsen er spenntur. vísir/Anton

Ísland og Úkraína mætast kl 17:00 í dag í leik um 2. sæti D-riðils í undankeppni HM 2026. Það er mikið undir en sigur eða jafntefli dugir Íslandi til þess að komast í umspil um sæti á HM. Leikurinn er kl 17:00 og er í opinni dagskrá á Sýn Sport.

„Taugarnar eru ágætar, það er auðvitað smá spenna og maður er með fiðring í maganum en ég held að það sýni bara hvað þetta er mikilvægur leikur. Ég er mjög spenntur,“ sagði Andri Lucas Guðjohnsen, framherji Íslands, í viðtali við Val Pál Eiríksson rétt fyrir leik.

Brynjólfur Willumsson er óvænt í byrjunarliði Íslands í dag og fær stórt verkefni í hendurnar. Hann hefur komið inn sem varamaður í fjórum leikjum í undankeppninni til þessa.

„Hann er auðvitað mjög góður leikmaður og ég kann svolítið á Binna. Hann vill kannski koma meira í lappir á meðan ég get þá farið djúpt. Ég hugsa að við getum gert góða hluti í dag tveir saman frammi.“

Andri Lucas Guðjohnsen og Brynjólfur Willumsson munu eiga við varnarjaxla Úkraínumanna.

„Þeir eru auðvitað mjög góðir og spila í flottum klúbbum en á sama tíma erum við með mjög góða leikmenn. Við viljum auðvitað sækja mikið á þá og vonandi munum við gera það.“

Jafntefli og sigur kemur Íslandi í umspilið fyrir HM í fótbolta í mars á næsta ári. Andri Lucas telur mikilvægt að liðið lesi leikinn og séu óhræddir við að reyna við sigur.

„Við þurfum að lesa í leikinn og sérstaklega þegar líður aðeins á. Við þurfum að vera meðvitaðir að jafntefli dugir en á sama viljum við alltaf vinna og við þurfum að vera óhræddir við að vinna þennan leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×