Erlent

Óttast að Úkraínu­menn verji Pokrovsk of lengi

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Pokrovsk í austurhluta Úkraínu. Rússar hafa tekið hluta borgarinnar og sent þangað fjölda hermanna.
Frá Pokrovsk í austurhluta Úkraínu. Rússar hafa tekið hluta borgarinnar og sent þangað fjölda hermanna. Getty/Kostiantyn Liberov, Libkos

Óttast er að Úkraínumenn séu að gera sömu mistök og þeir hafa gert áður, með því að reyna að halda ákveðnum bæ eða borg of lengi. Sérfræðingar og einhverjir yfirmenn í úkraínska hernum eru sagðir hafa áhyggjur af því að fall borgarinnar Pokrovsk sé orðið óhjákvæmilegt og að áframhaldandi vörn borgarinnar muni reynast dýrkeypt.

Úkraínumenn gætu viðurkennt ósigur í Pokrovsk, hörfað og reynt að gera það með skipulegum hætti og þannig mögulega dregið úr mannfalli.

Hitt sem þeir geta gert, og hafa gert áður, er að berjast um hvert einasta hús með því markmiði að tefja sigur Rússa eða jafnvel stöðva hann, og að fella fleiri rússneska hermenn.

Í minnst tveimur tilfellum í stríðinu hafa Úkraínumenn valið seinni kostinn. Það var í Bakmút og Avdívka, þar sem margir telja að verri kosturinn hafi verið valinn.

Eins og fram kemur í grein New York Times, þar sem fram kemur að sérfræðinar og einhverjir yfirmenn í úkraínska hernum hafi áhyggjur af stöðunni, vilja margir í Úkraínu meina að með því að reyna að halda þessum borgum eins lengi þeim er mögulegt þvingi þeir Rússa til að verja fjölda hermanna og miklu magni hergagna til að reka Úkraínumenn á brott og veiki þá þannig fyrir orrustur framtíðarinnar.

Þá hefur baráttan pólitískar tengingar þar sem ráðamenn í Kænugarði vilja ekki að ráðamenn í Kreml geti notað fall borga í pólitískum tilgangi.

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, heimsótti úkraínska hermenn í Pokrovsk fyrr í þessum mánuði.AP/Forsetaembætti Úkraínu

Nota veðrið til að komast hjá drónum

Rússar hafa varið gífurlegu púðri í að reyna að ná tökum á Pokrosvk, sem er í Dónetskhéraði í austurhluta Úkraínu. Úkraínumenn stjórna áfram nokkuð stórum hluta héraðsins en Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur lagt sérstaka áherslu á að hernema Dónetsk og Lúhansk, sem saman mynda Donbassvæðið svokallaða.

Um eitt og hálft ár er síðan Rússar hófu sóknina að Pokrovsk.

Sjá einnig: Rússar nærri stærstu landvinningunum í rúm tvö ár

Hún hefur gengið mjög hægt en tekið kippi, ef svo má segja, á síðustu mánuðum. Það var svo í seinni hluta júlí sem rússneskum hermönnum tókst fyrst að sækja fram inn í Pokrovsk og var útlit fyrir að borgin væri nálægt því að falla í hendur Rússa.

Síðan þá hefur þrýstingurinn á Úkraínumenn aukist jafnt og þétt og sérstaklega með versnandi veðri í haust og í vetur, eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi. Þá var þykk þoka yfir Pokrovsk og Rússar notuðu tækifærið til að senda fjölda hermanna inn í borgina.


Hvað verður um hermennina í Myrnohrad?

Þegar kemur að því að Úkraínumenn séu mögulega að halda vörnum of lengi í Pokrovsk verður að taka tillit til borgarinnar Myrnohrad, sem liggur austur af Pokrovsk. Þar halda úkraínskir hermenn enn til en óljóst er hve margir þeir eru.

Rússneskir herbloggarar hafa á undanförnum dögum haldið því fram að Rússar hafi verið að sækja fram í borginni en staðan þykir nokkuð óljós.

Falli Pokrovsk verða þeir alfarið umkringdir en Rússar hafa verið að gera umfangsmiklar loftárásir á borgina með stærðarinnar svifsprengjum.

Rob Lee, sem á tístið hér að ofan, vinnur hjá bandarísku hugveitunni Foreign Policy Research Institute, en i samtali við New York Times segir hann að Úkraínumenn hafi áður reynt að halda borgum of lengi.

Þeir hafi reynt það eftir að aðstæður verjenda borganna versnuðu til muna og ómögulegt var fyrir þá að verjast Rússum með hagkvæmum hætti. Það er að segja, að Úkraínumenn missi of marga hermenn, miðað við það hve marga rússneska hermenn þeir fella.

Rússar eiga mun auðveldar með að fylla upp í raðir sínar en Úkraínumenn, sem hafa lengi átt í basli vegna manneklu á víglínunni.

Þegar borginn Avdívka féll í hendur Rússa í febrúar í fyrra enduðu Úkraínumenn á að því að hörfa í tiltölulega mikilli óreiðu. Þá þurftu þeir að skilja særða hermenn eftir en Rússar voru síðar meir sakaðir um að hafa tekið þessa hermenn af lífi.

Gætu hörfað og tekið sér betri stöður

Í samtali við NYT segir yfirmaður í úkraínska hernum að Úkraínumenn eigi undir högg að sækja þegar kemur að átökum í byggðum eins og Pokrovsk. Auðveldara sé fyrir rússneska hermenn að fela sig fyrir drónum og marga menn þurfi til að mynda stöðuga víglínu.

Þá séu Úkraínumenn í sérstaklega slæmri stöðu þegar kemur að notkun svifsprengja, eins og í myndböndunum hér að ofan. Eina slíka þurfi til að rústa heilu fjölbýlishúsunum, noti Úkraínumenn þau til varna.

Yfirmaður þessi sagði að mun hentugra yrði fyrir Úkraínumenn að hörfa úr borginni og taka upp betri varnarstöður.

Elta uppi úkrínska drónaflugmenn

Vörn Pokrovsk er talin hafa komið töluvert niður á Úkraínumönnum hvað varðar dróna. Reynslumiklir drónaflugmenn eru sagðir hafa fallið í markvissum árásum rússneskra drónaflugmanna sem hafa komið sér fyrir í Pokrovsk og þar nærri.

Financial Times segir frá því að ákveðin stefnubreyting hafi orðið hjá Rússum, þar sem þeir leggi meiri áherslu á að finna úkraínska drónaflugmenn og fella þá með drónum en að leita uppi hermenn á víglínunni.

Það hefur komið niður á Úkraínumönnum sem hafa lagt mun meiri áherslu á notkun dróna, til að vega upp á móti hermannaskorti á víglínunni.


Tengdar fréttir

Leiðtogi AfD segir Rússa ekki ógna Þýskalandi en varar við Pólverjum

Tino Chrupalla, annar af æðstu leiðtogum flokksins Valkostur fyrir Þýskaland eða AfD, segir Þýskalandi ekki stafa nokkur ógn af Rússlandi Vladimírs Pútín. Það sama segir hann þó ekki um Pólland. Churpalla telur að Þýskalandi gæti stafað ógn af Póllandi.

Lætur ráðherra fjúka vegna umfangsmikils spillingarmáls

Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti hefur látið dómsmálaráðherrann Herman Halushchenko og orkumálaráðherrann Svitlönu Grynchuk fjúka en bæði hafa verið ásökuð um aðild að umfangsmiklu spillingarmáli.

Nýtt spillingarmál skekur Úkraínu

Forsvarsmenn sjálfstæðrar andspillingarrannsóknarstofnunar Úkraínu, sem kallast NABU, segjast rannsaka umfangsmikið spillingarmál í orkugeira ríkisins. Rannsóknin er meðal annars sögð snúa að meintum umfangsmiklum mútugreiðslum og fjársvikum sem tengjast ríkisfyrirtæki sem rekur þrjú kjarnorkuver.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×