Innlent

Gögnin frá ríkis­lög­reglu­stjóra komin á borð ráð­herra

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Þorbjörg Sigríður og Sigríður Björk.
Þorbjörg Sigríður og Sigríður Björk. Samsett

Ríkislögreglustjóri afhenti dómsmálaráðuneytinu umbeðin gögn vegna Intra- málsins svokallaða um miðnætti að sögn ráðherra. Hún segist ætla að vinna málið hratt og vel og skynji vel þungan í umræðunni. Staða ríkislögreglustjóra sé alvarleg.

Dómsmálaráðherra óskaði eftir skýringum ríkislögreglustjóra um mánaðamótin vegna viðskipta embættisins við félagið Intra ráðgjöf fyrir 5. nóvember eða í gær. Málið snýst um að á síðustu fimm árum hefur embættið greitt Intru, alls 160 milljónir króna að virðisaukaskatti meðtöldum, fyrir ráðgjöf. Opinberum stofnunum ber að bjóða út ráðgjafakaup þegar viðmiðunarfjárhæð nær 20 milljónum.

Vilhjálmur Árnason formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, bar upp fyrirspurn á Alþingi í morgun um hvenær dómsmálaráðherra hefði fengið vitneskju um málið og hver viðbrögð ráðherra voru þá.

„Eru gögn sem dómsmálaráðherra óskaði eftir komin nú þegar,“ sagði Vilhjálmur m.a. í fyrirspurn sinni á Alþingi. 

Gögnin bárust um miðnætti

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra kvaðst fyrst hafa fengið upplýsingar um málið í fjölmiðlum.

„Ég brást strax við. Ég fundaði með ríkislögreglustjóra og óskaði eftir skýringum. Ég hef síðan fundað með Sigríði og greint henni frá því að ég lít þetta mál alvarlegum augum. Af því leiðir að ég lít þannig á stöðuna að staða ríkislögreglustjóra sem forstöðumanns er alvarleg. Ég hef rætt í tvígang við forstöðumanninn og óskað eftir gögnum og skýringum og þau bárust eftir miðnætti í gær,“ segir Þorbjörg. 

Hún segir að í ljósi stöðunnar þurfi að skila niðurstöðu í málinu sem fyrst.

„Ég heyri og finn, ég skynja taktinn í umræðunni. Þetta mál er til skoðunar. Ég mun vinna það í samræmi við kröfur stjórnsýslulaga en fljótt og vel,“ segir Þorbjörg.   

Fréttastofa hefur óskað eftir að fá skýringar og gögnin send til sín, en svör þess efnis höfðu ekki borist nú fyrir hádegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×