Handbolti

Al­freð klæddist kvenna­treyjunni á leiknum við Ís­land

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Gíslason var að vanda líflegur á hliðarlínunni á leiknum gegn Íslandi í gær.
Alfreð Gíslason var að vanda líflegur á hliðarlínunni á leiknum gegn Íslandi í gær. Getty/Harry Langer

Alfreð Gíslason var í blárri og bleikri treyju þýska kvennalandsliðsins í handbolta, í stað þess að klæðast svörtu eða hvítu eins og hann er vanur, þegar Þýskaland mætti Íslandi öðru sinni í vináttulandsleik í Þýskalandi í gær.

Alfreð útskýrði treyjuvalið eftir leik en allt þjálfarateymið var eins klætt til að vekja athygli á miðasölu fyrir HM kvenna.

„Við fengum að upplifa stórkostlegt Evrópumót hjá körlunum hér í Þýskalandi 2024. Ég óska þess að konurnar fái að upplifa sams konar, stórkostlegt mót hér á heimavelli í ár og ég hlakka til leikjanna í Stuttgart og Dortmund.“

Heimsmeistaramót kvenna fer fram í Þýskalandi og Hollandi dagana 26. nóvember til 14. desember. Ísland er þar í sama riðli og Þýskaland og mætast liðin í upphafsleik mótsins í Stuttgart en í riðlinum eru einnig Serbía og Úrúgvæ. Þrjú liðanna komast svo áfram í milliriðil í Dortmund.

Samkvæmt frétt Handball World stendur yfir herferð til að auglýsa mótið, til að fjölga áhorfendum á lokasprettinum fram að móti. Aðeins um 50% miða mun hafa selst og sagði Mark Schober, formaður þýska handknattleikssambandsins, stefnuna setta á að gera betur.

Ekki eins einbeittir svo Ísland átti skilið að vinna

Í leik karlalandsliðanna í gær svaraði Ísland fyrir sig með tveggja marka sigri, 31-29, eftir ellefu marka tapið síðastliðinn fimmtudag. Þýskir miðlar segja það mikinn skell að sjá hve mikil breyting gat orðið á þýska liðinu á milli leikja, og eru nú síður bjartsýnir á að Þýskaland komist í undanúrslit á EM í janúar.

„Það er margt sem ég var ekki ánægður með. Við vorum ekki nógu góðir í sókninni. Í dag gekk ekki jafn mikið upp og á fimmtudaginn, þannig að Ísland vann verðskuldað. Við gátum prófað alla leikmennina en þetta dugði ekki til í lokin,“ sagði Alfreð samkvæmt heimasíðu þýska handknattleikssambandsins.

„Í vörninni erum við orðnir sveigjanlegri. Í sókninni  [í gær] köstum við hins vegar of mörgum boltum frá okkur og gerum of mörg einföld mistök, sem veldur því að við fáum á okkur mun fleiri mörk úr hraðaupphlaupum en við skorum sjálfir. Núna var liðið heldur ekki með sömu einbeitingu og á fimmtudaginn,“ sagði Alfreð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×