Tíska og hönnun

Klæddi sig upp sem hjá­kona eigin­mannsins

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Tónlistarkonan Lily Allen var að gefa út tímamótaverkið West End Girl og klæddi sig upp sem Madeline, hjákona fyrrum eiginmanns hennar, á Hrekkjavökunni. 
Tónlistarkonan Lily Allen var að gefa út tímamótaverkið West End Girl og klæddi sig upp sem Madeline, hjákona fyrrum eiginmanns hennar, á Hrekkjavökunni.  Rachpoot/Bauer-Griffin/GC Images

Tónlistarkonan Lily Allen kann að semja lög sem vekja athygli og það má eiginlega að segja að breska listagyðjan sé að eiga rosalegustu tónlistarendurkomu ársins, jafnvel aldarinnar. Á nýjustu plötu sinni afhjúpar hún öll hjónabandsvandamálin, syngur um píkuhöll fyrrum eiginmannsins og hjákonu hans Madeline.

Platan West End Girl hefur vart farið fram hjá neinum sem er með puttann á púlsinum á dægurmenningunni en hún kom út 24. október síðastliðinn og hafa milljónir hlustað á hana. 

Blaðamaður hefur hlustað oft í gegn og platan er stórkostleg. Tilfinningin er svolítið þannig að þú situr á kaffihúsi nálægt einhverri frægri manneskju sem er að tala hátt um vandamálin sín og þér finnst hálf óþægilegt hvað þú heyrir mikið. 

Lily Allen gefur ekkert eftir, skefur ekkert af hlutunum og er ekkert að passa sig að ganga ekki of langt. Hún gengur alla leið. 

Platan er ferðalag í gegnum hjónaband hennar og Stranger Things-leikarans David Harbour, sem kemur ekki æðislega út úr þessum lögum. Hann virðist hafa beðið um opið samband, Lily hikandi samþykkt og þau sett ákveðnar reglur í kringum það sem hann svo braut ítrekað. 

Eftir situr hún algjörlega brotin og vinnur sig í gegnum þetta með tónlistinni. Brjálaðar vinsældir plötunnar hljóta að hjálpa henni í gegnum þetta. 

Platan flæðir ótrúlega vel í gegn og er eins og átakanleg rómantísk gamanmynd sem hlustandi sýgst inn í. Uppbyggingin er algjör snilld og í laginu Tennis kemur fram að Harbour hafi verið að halda við konu sem hann var líka að spila tennis með. Lagið flýtur inn í næsta lag sem heitir Madeline eftir hjákonunni. 

Þar kemur fram að samkomulag hjónanna hafi verið eftirfarandi: 

Bara inni á hótelherbergjum, engin samskipti utan kynlífsins, það yrði að vera með kynlífsverkafólki eða allavega að borga fyrir kynlífið og það yrði að vera með ókunnugum. En Madeline var ekki ókunnug og syngur Lily það aftur og aftur. „En þú ert ekki ókunnug Madeline.“ 

Það er ekki alveg ljóst hver Madeline er og það er líka smá spennandi að hafa örlitla dulúð í kringum það. 

Lily Allen klæddi sig upp sem Madeline, sem er nafn á hjákonu David Harbour fyrrum eiginmanns Lilyar., MEGA/GC Images

Lily er svo hnyttin týpa og tekur sjálfri sér ekki of alvarlega. Á Hrekkjavökunni um helgina ákvað hún auðvitað að klæða sig upp sem barnabókarkarakter sem heitir líka Madeline og vakti það mikla lukku meðal netverja. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.