Fótbolti

Viðar Ari lagði upp tvö í Ís­lendinga­slag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viðar Ari frábær í dag.
Viðar Ari frábær í dag. HamKam

Viðar Ari Jónsson lagði upp tvö mörk þegar HamKam lagði Sandefjord 3-1 í efstu deild norska fótboltans.

Um Íslendingaslag var að ræða þar sem Stefán Ingi Sigurðarson var í byrjunarliði gestanna. Það voru hins vegar heimamenn sem byrjuðu leikinn af ógnarkrafti.

Það voru aðeins fimm mínútur liðnar þegar Viðar Ari hafði lagt upp fyrsta mark leiksins. Það skoraði Moses Mawa. Aðeins þremur mínútum síðar tvöfaldaði HamKam forystuna og staðan 2-0 í hálfleik.

Öll von gestanna um endurkomu dó þegar níu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Staðan orðin 3-0 þökk sé marki Gustav Granath. Aftur var það Viktor Ari sem lagði upp. Gestirnir minnkuðu muninn eftir að Stefán Ingi var farinn að velli en tókst aldrei að koma almennilegri spennu í leikinn, lokatölur 3-1.

HamKam nú með 34 stig í 11. sæti meðan Sandefjord er með 39 stig í 7. sæti.

Lærisveinar Freys Alexanderssonar í Brann töpuðu þá óvænt fyrir Bryne sem er í bullandi fallbaráttu. Eggert Aron Guðmundsson lék allan leikinn í liði Brann. Lærisveinar Freys eru nú með 52 stig í 3. sæti, fjórum meira en Tromsö sem á leik til góða í 4. sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×