Veður

Verður lík­lega mikið eftir af snjó og klaka

Eiður Þór Árnason og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Haraldur Ólafsson veðurfræðingur í Stangarholti í Reykjavík þar sem enn er nokkuð um snjó á götum.
Haraldur Ólafsson veðurfræðingur í Stangarholti í Reykjavík þar sem enn er nokkuð um snjó á götum. SÝN

Þótt snjó sé tekið að leysa á höfuðborgarsvæðinu hefur umferð víða gengið hægt vegna klakabunka á vegum og stígum sem gera fólki erfitt að komast leiðar sinnar. Hálku hefur gætt víða samhliða hlýindunum.

Á meðan færð er orðin betri á stofnbrautum höfuðborgarsvæðisins eru margar húsagötur enn fullar af klaka og snjó. Í ljósi þessa getur það sums staðar verið áskorun fyrir ökumenn að keyra inn í göturnar.

„Það verður líklega þokkalega hlýtt næsta tæpa sólarhringinn eða þarumbil og eitthvað gæti rignt líka þannig að það mun nú sjálfsagt einhver hluti af þessum klaka og snjó bráðna en það verður líklega mikið eftir,“ sagði Haraldur Ólafsson veðurfræðingur á sjötta tímanum í kvöld.

„Það gætir alveg frosið annað kvöld og ekki víst að það þiðni aftur fyrr en einhvern tímann á mánudag. Það væri skynsamlegt að hreinsa burtu það krap sem enn er á gönguleiðum um miðjan dag á morgun.“

Erfitt sé að berja á klakanum á meðan hann sé frosinn. Veðurspáin gerir ráð fyrir því að það hlýni aftur í næstu viku og það verði í meginatriðum frostlaust nánast alla næstu viku. 

Geti staðið vikum saman

Haraldur á því von á því að snjórinn og klakinn muni bráðna hægt og rólega. Ekki sé útlit fyrir asahláku þar sem ekki er spáð mikilli rigningu eða vindi. Það muni taka lengri tíma fyrir stóra snjóskafla að bráðna sem má meðal annars finna í íbúðagötum.

„Svona hraukar þeir geta lifað vikum saman og það er ekkert sérstakt í kortunum sem bendir til þess að þeir séu alveg að fara,“ bætir Haraldur við.

Hrekkjavakan fór fram í dag og var tekin sú ákvörðun í mörgum hverfum á höfuðborgarsvæðinu að fresta sælgætisirölti barna vegna veðurs og hálku.

„Veðrið er í sjálfu sér þokkalegt núna og verður það líka á morgun en hálkan er núna og verður á morgun líka. Það er hugsanlegt að það verði búið að sanda eitthvað meira á morgun en í dag en það verður klaki á morgun líka,“ segir Haraldur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×