Erlent

Búast við ham­förum vegna Melissu

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Kingston á Jamaíka á dögunum.
Frá Kingston á Jamaíka á dögunum. AP/Matias Delacroix

Fellibylurinn Melissa nær í morgun landi á Jamaíka í Karíbahafinu og er óttast að hann muni valda gífurlegum usla og tjóni þar. Melissa er fimmta stigs fellibylur og sá öflugasti sem skráður hefur verið ná landi á eyríkinu fátæka og er búist við því að auga óveðursins fari þvert yfir eyjuna í dag.

Ráðamenn á Jamaíka vöruðu í nótt við því að þeir hefðu undirbúið sig eins vel og hægt væri en þrátt fyrir það væri útlit fyrir að skaðinn yrði gífurlegur. Verstu spár gera ráð fyrir að sjávarstaða við suðurhluta eyjunnar hækki um allt að fjóra metra.

Meðalvindhraði Melissu er um fimmtíu metrar á sekúndu og fylgir mikil rigning fellibylnum.

Beina útsendingu frá Kingston, höfuðborg Jamaíka, má sjá í spilaranum hér að neðan.

Melissa safnaði krafti mjög hratt á undanförnum dögum og fór úr því að vera almenn lægð í að verða fimmta stigs fellibylur á innan við tveimur sólarhringum.

Sjá einnig: Jamaíka býr sig undir öflugasta fellibyl sem þangað hefur ratað

„Það eru engir innviðir á þessu svæði sem munu standa af sér fimmta stigs fellibyl,“ sagði Andrew Holness, forsætisráðherra. Hann sagði raunverulegu áskorunina vera að tryggja að Jamaíka jafnaði sig fljótt þegar óveðrinu slotar, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Strax í nótt byrjuðu að berast fregnir af föllnum trjám, aurskriðum og rafmagnsleysi.

Embættismenn búast við því að um fimmtíu þúsund manns, af um 2,8 milljónum, muni þurfa að yfirgefa heimili sín, samkvæmt frétt New York Times. Kvartað hefur verið yfir því að of fáir hafi farið frá svæðunum sem óttast er að verði hvað verst úti.

Seinna í dag er búist við því að Melissa nái landi á Kúbu.

Hér að neðan má sjá myndbönd sem tekin voru úr flugvél sem flogið var inn í auga Melissu í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×