Innlent

Píratar berjist gegn „rísandi bylgju lýðskrums og fas­isma“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Alexandra Briem segist vera sá öflugi formaður sem Píratar þurfa á að halda.
Alexandra Briem segist vera sá öflugi formaður sem Píratar þurfa á að halda. Vísir/Lýður Valberg

Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, hefur bæst í hóp þeirra sem hyggjast sækjast eftir að verða formaður flokksins á aukaaðalfundi á fimmtudag. Dóra Björt Guðjónsdóttir hefur einnig lýst yfir framboði.

Alexandra tilkynnti um ákvörðun sína í myndskeiði á Facebook, þar sem hún segir meðal annars að Píratar eigi að hafa val þegar þeir kjósa sinn fyrsta formann. Hún segir að minnsta kosti þrír muni verða í framboði en hún telji sig fýsilegasta kostinn.

„Ég lít svo á að Píratar séu frjálslyndur umbótaflokkur með áherslu á kerfisbreytingar, með áherslu á framtíðina og vissulega aðeins vinstra megin við miðju. Ég lít svo á að við séum sá flokkur sem berst gegn rísandi bylgju lýðskrums og fasisma, og mér finnst mikilvægt að við séum það áfram,“ segir Alexandra.

Hún segist telja sig hafa skýra sýn á það sem þarf að laga og hvar vestrænu lýðræði hefur ekki gengið nógu vel að fóta sig. Mikilvægustu verkefnin framundan séu að takast á við vonleysi, stöðnun og jaðarsetningu.

Þá þurfi að takast á við „harðsúrnaða misskiptingu“ sem fólk sé að verða vonlaust um að muni takast að breytast.

Alexandra segir ýmislegt framundan hjá flokknum, ekki síst að taka umræðu um að skipta um nafn. „Ég trúi á okkur, ég trúi á framtíðina, ég trúi á lýðræðið og ég trúi á mig,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×