Erlent

Hækkar tolla á kanadískar vörur vegna sjón­varps­aug­lýsingar

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Auglýsingin fór fyrir brjóstið á honum.
Auglýsingin fór fyrir brjóstið á honum. AP/Manuel Balce Ceneta

Donald Trump hefur heitið því að hækka tolla á vörur frá Kanada um tíu prósentustig vegna auglýsingar sem Ontario-hérað stóð fyrir og var sýnd í bandarísku sjónvarpi. Í auglýsingunni voru spilaðar klippur af Ronald Reagan Bandaríkjaforseta vara við afleiðingum hárra tolla á innflutningsvörur.

Þessu greinir Trump frá í færslu á samfélagsmiðlum en fyrrnefnd auglýsing hefur verið mikið bitbein vestanhafs undanfarna daga. Í færslunni segir Trump einnig að hann hafi ákveðið að slíta samningaviðræðum landanna á milli. Viðskiptasamband Kanada og Bandaríkjanna er eitt það umfangsmesta í heimi en Trump og ríkisstjórn hans hafa þegar lagt 35 prósenta tolla á margar kanadískar vörur.

Í auglýsingunni eru spilaðar klippur, að því er Guardian greinir frá, af Ronald Reagan þar sem hann flytur ræðu um skaðleg áhrif hárra tolla á erlendan innflutning á bandarískan efnahag og bandaríska neytendur.

„Ronald Reagan elskaði tolla í þágu þjóðaröryggis og efnahagsins, en Kanada sagði að það gerði hann ekki! Auglýsinguna þeirra átti að taka úr útsendingu strax, en þeir sendu hana út í gær á meðan úrslitaleikur MLB-deildarinnar í hafnabolta stóð yfir, meðvitaðir um að hún væri fals,“ segir Trump.

Vegna alvarlegrar rangfærslu þeirra og fjandsamlegrar aðfarar ætla ég að hækka tolla á Kanada um 10& umfram það sem þeir greiða þegar,“ segir Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×