Handbolti

Seldu bleika búninginn hennar Herrem fyrir meira en milljón

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Camilla Herrem fagnar marki í bleika búningnum sem síðan seldist á meira en milljón.
Camilla Herrem fagnar marki í bleika búningnum sem síðan seldist á meira en milljón. @solahk

Norska handknattleiksfélagið Sola HK safnaði veglegri upphæð fyrir krabbameinsfélög í landinu í tilefni af bleikum október.

Leikmenn Sola spiluðu í sérgerðum bleikum búningum í leiknum gegn Storhamar og að lokum voru búningarnir boðnir upp til að safna peningum fyrir Bleiku slaufuna sem norska krabbameinsfélagið og norska brjóstakrabbameinsfélagið standa að baki.

Eftirsóttasti búningurinn var búningurinn sem Camilla Herrem spilaði í.

Sola greindi frá því á miðlum félagsins að búningur Herrems hefði verið seldur fyrir hundrað þúsund norskar krónur eða meira en 1,2 milljónir íslenskra króna.

„Þetta er einn dýrasti búningur í norsku íþróttasögunni. Við erum mjög stolt og þakklát fyrir að geta gefið þennan pening til Bleiku slaufunnar, málefnis sem er okkur hugleikið,“ skrifaði Sola HK á miðlum sínum.

Herrem greindist sjálf með krabbamein fyrr á þessu ári og hefur hún hlotið lof fyrir að tala opinskátt um sjúkdóminn.

Herrem vakti ekki síst athygli fyrir það að snúa aftur inn á handknattleiksvöllinn aðeins nokkrum dögum eftir að hafa fengið síðasta lyfjaskammtinn í krabbameinslyfjameðferð sinni.

Herrem er ein sigursælasta handboltakona sögunnar og lykilkona í landsliði Þóris Hergeirssonar í fimmtán ár. Hún er núna 38 ára gömul og kvaddi norska landsliðið á sama tíma og Þórir eftir að hafa unnið ellefu gullverðlaun og sautján verðlaun á stórmótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×