Erlent

Mynda­vélar sneru í ranga átt er gripunum var stolið

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Louvre var opið almenningi á ný í dag eftir atvikið á mánudag en lokað er á safninu alla þriðjudaga.
Louvre var opið almenningi á ný í dag eftir atvikið á mánudag en lokað er á safninu alla þriðjudaga. AP

Öryggismyndavélar sem vakta áttu svalirnar þar sem skartgripir Napóleons Bonaparte voru til sýnis á Louvre-safninu sneru í ranga átt þegar þjófar létu greipar sópa á mánudag og hlupu á brott með gripina. 

Átta skartgripum úr skartgripasafni Napóleons að andvirði rúmlega fjórtán milljarða króna var stolið úr hýsakynnum safnsins á mánudag. Einn skartgripurinn, perlukóróna, hefur komist í leitirnar en er töluvert skemmd. 

Laurence des Cars safnstjóri Louvre sat fyrir svörum á fundi öldungadeildar franska þingsins fyrr í dag. Hún sagði atvikið mega rekja til ýmissa þátta í starfsemi safnsins sem væri að hennar sögn ábótavant. 

Til að mynda hafi öryggisgæsla ekki komið auga á þjófana nægilega snemma, en de Cars sagði vitað mál að bæði öryggisgæslu og myndavélaeftirliti í kringum safnið væri ábótavant. Þá gagnrýndi hún vanfjármögnun ríkisins í þeim efnum.

Sem fyrr segir sneru öryggismyndavélar sem vakta áttu svæðið þar sem skartgripir Napóleons lágu, frá gripunum.

Sömuleiðis gagnrýndi des Cars sjálfa sig fyrir að hafa uppljóstrað um að öryggisbúnaðurinn væri kominn til ára sinna þegar hún tók við starfi safnstjóra fyrir fjórum árum. Hún sagðist hafa boðist til þess að stíga til hliðar sem safnstjóri en boðið hafi verið afþakkað. 


Tengdar fréttir

Louvre-safni lokað vegna ráns

Louvre-safninu í Parísarborg hefur verið lokað vegna ráns í húsakynnum þess. Níu hlutir úr skartgripasafni Napóleons voru teknir. Einn þeirra er þegar fundinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×