Erlent

Gerðu á­rás á leik­skóla í Karkív

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Karkív í morgun.
Frá Karkív í morgun. AP/Almannavarnir Úkraínu

Að minnsta kosti sex eru látnir eftir umfangsmiklar árásir Rússa á Úkraínu í nótt og í morgun. Þar á meðal er kona og tvær ungar dætur hennar í Kænugarði, sex mánaða og tólf ára gamlar. Í öðru tilfelli féll einn í árás á leikskóla í Karkív.

Margir eru sagðir særðir eftir árásir næturinnar sem beindust að mestu leyti að orkuinnviðum, eins og árásir Rússa hafa gert undanfarnar vikur, og árásirnar beindust einnig að mestu að Kænugarði og nærliggjandi svæðum.

Árásir síðustu vikna hafa valdið miklum skemmdum á orkuinnviðum Úkraínumanna, sem eiga kaldan vetur í vændum.

Flugher Úkraínu segir að Rússar hafi notað ellefu skotflaugar, sautján stýriflaugar og 405 sjálfprengi- og tálbeitudróna til árásanna í nótt.

Úkraínumenn segjast hafa skotið 333 dróna niður. Einnig hafi sex skotflaugar og tíu stýriflaugar verið skotnar niður.

Sjálfsprengidrónar eru sagðir hafa hæft leikskóla í Karkív, næst stærstu borg Úkraínu, þar sem fjöldi barna voru inni. Einn lét lífið og sex særðust en AP fréttaveitan hefur eftir borgarstjóra Karkív að ekkert barn hafi sakað í árásinni.

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir börnin sem voru á leikskólanum í miklu áfalli eftir árásina, sem sé með öllu óréttlætanleg.

„Það er klárt að Rússar eru að verða sífellt blygðunarlausari,“ skrifaði Selenskí á samfélagsmiðla. „Með þessum árásum eru Rússar að hrækja framan í alla sem kalla eftir friði. Fautar og hryðjuverkamenn skilja eingöngu afl.“

Utanríkisráðherra Úkraínu slær á svipaða strengi og kallar eftir viðbrögðum vegna árása næturinnar. Hann segiri að viðræður muni ekki stöðva þessi hryðjuverk en vopn og refsiaðgerðir geti gert það.

Blaðamaður Financial Times birti kort sem sýnir árásir næturinnar og morgunsins.


Tengdar fréttir

Ólíklegt að Trump og Pútín muni funda í bráð

Engin dagsetning hefur verið ákveðin fyrir fund Donalds Trump og Vladimírs Pútín, forseta Bandaríkjanna og Rússlands, sem til stendur að halda í Búdapest í Ungverjalandi. Talsmaður Pútín segir að undirbúa þurfi slíkan fund í þaula og að sá undirbúningur verði erfiður.

Hafna aftur tillögu Trumps

Rússar hafa hafnað tillögu Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, um skilyrðislaust vopnahlé svo hægt sé að hefja almennilegar friðarviðræður. Trump hefur áður lagt fram sambærilegar tillgöur sem Úkraínumenn hafa samþykkt en Rússar ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×