Innlent

Fellur frá kröfu um meira­próf bænda

Árni Sæberg skrifar
Eyjólfur Ármannsson er innviðaráðherra.
Eyjólfur Ármannsson er innviðaráðherra. Vísir/Vilhelm

Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra hefur ákveðið að falla frá reglugerðarbreytingu sem hefði valdið því að bændur þyrftu meirapróf til að nota dráttarvélar sínar.

Í morgun var greint frá því að innviðaráðherra hefði birt drög að reglugerðarbreytingu, sem fela í sér að bændur þurfa framvegis að taka meirapróf til þess að mega aka dráttarvélum sínum. 

Bændur og ýmis samtök þeirra mótmæltu fyrirhuguðum reglugerðarbreytingum harðlega í umsagnarferlinu og ráðherra þegar brugðist við þeim mótmælum.

Sneri að umferðaröryggi

„Vegna frétta um drög að breytingu á reglugerð um ökuskírteini, nr. 830/2011, get ég upplýst að fallið verður frá áformum um þrepaskipt réttindi til aksturs dráttarvéla,“ segir Eyjólfur í færslu á Facebook.

Reglugerðarbreytingin hafi upphaflega verið sett fram að tillögu Samgöngustofu. Meginrök hennar hafi snúið að umferðaröryggi. Í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar með umferðarlögum hafi verið bent á að dráttarvélar með stóra og þunga vagna væru í auknum mæli notaðar líkt og vörubílar í almennri umferð.

Kostnaður og fyrirhöfn

Drögin hafi verið birt til opins samráðs til að tryggja að markmið reglugerðarbreytinganna væri raunhæft og tæki mið af sjónarmiðum þeirra sem hana varðar.

„Samráði er nýlokið og að teknu tilliti til umsagna og þeirra áhrifa sem breytingin hefði í för með sér, einkum þess kostnaðar og fyrirhafnar sem hlytist af kröfu um aukin ökuréttindi fyrir bændur, er það niðurstaða mín að fella tillöguna brott.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×