Erlent

Segir herinn til­búinn að verjast inn­rás

Samúel Karl Ólason skrifar
Nicolas Maduro, forseti Venesúela.
Nicolas Maduro, forseti Venesúela. AP/Ariana Cubillos

Nicolás Maduro, forseti Venesúela, segist vera að senda hermenn að ströndum Karíbahafsins og kalla út milljónir manna í varalið, vegna ógnunar frá hernaðaruppbyggingu Bandaríkjamanna á svæðinu. Hann er sagður hafa boðið Bandaríkjamönnum að hann myndi stíga til hliðar á næstu árum en því boði mun hafa verið hafnað.

Bandaríkjamenn hafa safnað saman töluverðum herafla við Karíbahafið og á því. Frá því í september hafa Bandaríkjamenn gert nokkrar árásir á báta sem ráðamenn vestanhafs hafa haldið fram að hafi verið notaðir til að smygla fíkniefnum. Þeir hafa þó engar sannanir fært fyrir því og óhætt er að segja að miklar efasemdir eru uppi um að árásirnar séu löglegar.

Talið er mögulegt að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, gæti tekið þá ákvörðun að reyna að koma Maduro frá völdum með afli en í einrúmi segja bandarískir embættismenn að það sé markmiðið. Trump hefur viðurkennt að hann hafi heimilað leyniþjónustum Bandaríkjanna að hefja einhverskonar aðgerðir í Venesúela.

Sjá einnig: Heimilar banatilræði í Venesúela og íhugar árás

AP fréttaveitan hefur eftir heimildum að Maduro hafi lagt til að hann myndi stíga til hliðar sem forseti eftir þrjú ár og að Delcy Rodriguez, varaforseti hans, myndi klára sex ára kjörtímabilið, sem lýkur árið 2031. Rodriguez myndi svo ekki gefa aftur kost a sér til embættis forseta.

Maduro sór embættiseið í janúar, þó trúverðugar vísbendingar bendi til þess að hann hafi tapað forsetakosningunum í fyrra.

Sjá einnig: Blinken segir González rétt­kjörinn forseta en Maduro situr sem fastast

Hvíta húsið hafnaði þessari tillögu á þeim grunni að ríkisstjórn Maduros væri ólögmæt og að hann stýrði ríki sem byggði á fíkniefnaframleiðslu og hryðjuverkastarfsemi.

Maduro tjáði sig um þessar fregnir á viðburði í Venesúela í gær þar sem hann sagði þær ekki sannar. Þeim væri eingöngu ætlað að sundra venesúelsku þjóðinni. Rodriguez gerði það einnig á samfélagsmiðlum. Hún sagði fregnirnar falskar.

Ekki nóg til innrásar

Wall Street Journal segir ríkisstjórn Maduro hafa aukið útbreiðslu áróðurs í garð Bandaríkjanna, í sjónvarpi, útvarpi og á samfélagsmiðlum. Þar sé íbúum sagt að Bandaríkjamenn séu nasistar sem vilji koma klónum í olíuauð þjóðarinnar.

Því hefur einnig verið haldið fram að her Venesúela sé tilbúinn til að verjast yfirvofandi innrás Bandaríkjamanna. Áætlað er að hermenn séu um 125 þúsund talsins, á blaði.

Myndefni sem birt hefur verið sýnir einnig almenning taka þátt í þjálfun fyrir mögulegan hernað og herþotur framleiddar í Rússlandi á flugi.

Sérfræðingar sem ræddu við WSJ segja hernaðaruppbyggingu Bandaríkjamanna á svæðinu ekki gefa til kynna að innrás sé í vændum. Hins vegar dugi hún til loftárása í Venesúela.

Vitað er að minnst átta herskipum hafi verið siglt á svæðið auk eins kafbátar. Þá er búið að senda F-35 herþotur, eftirlitsvélar og dróna á svæðið einnig. Einnig hafa fregnir borist af því að sérsveitir hafi verið sendar til Karíbahafsins.

Aðmíráll stígur til hliðar

Alvin Holsey, aðmírállinn sem stýrt hefur yfirstjórn herafla Bandaríkjanna í Suður-Ameríku (SOUTHCOM), mun hætta starfi sínu í loki þessa árs. Þetta tilkynnti Pete Hegseth, varnarmálaráðherra, í gær en einungis ár er síðan Holsey tók við starfinu og sitja menn yfirleitt í því í þrjú ár.

Hegseth sagði ekki af hverju aðmírállinn væri að stíga til hliðar en samkvæmt heimildum New York Times hafði Holsey lýst yfir ótilgreindum áhyggjum sínum af árásum Bandaríkjamanna á áðurnefnda báta á Karíbahafi og öðrum verkefnum á svæðinu.

Frá því Hegseth tók við embætti hafa margir háttsettir yfirmenn í herafla Bandaríkjanna verið reknir eða þeim bolað úr starfi. Margir þeirra hafa verið þeldökkir, eins og Holsey, eða konur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×